Rangæingar - Jólamótið 2013 -- Óheppni með veður??

laugardagur, 28. desember 2013

Laugardaginn 28. desember komu Rangæingar saman í golfskálanum á Strönd til að spila sitt árlega jólamót.   14 pör mættu til leiks þ.á.m. góðir gestir frá Selfossi og Flúðum.

Auðvitað var þetta fyrst og fremst innanfélagsmót og sigurvegarar þar urðu þeir Sigurður og Torfi með 50,9% skor, enda eitilharðir naglar.   Í hinu mótinu, sem auðvitað er minna í frásögur færandi og tekur því varla að minnast á, en skal þó getið lauslega urðu Pétur Hartmannson og Brynjólfur Gestsson sigurvegarar með 62,6% skor.   Næstir urðu Strandamaðurinn sterki og Hvergerðingurinn hrausti, Karl Þ. Björnsson og Össur Friðgeirsson með 57,9% skor.  Í þriðja sæti urðu svo óðalsbóndinn og búmaðurinn Björn Snorrason og frændi hans og flokksbróðir Ríkharður Sverrisson með 56,0% skor.  Jafnir þeim urðu doktor Pétur Skarphéðinsson og Valdimar Sævaldsson en bóndinn og flokksbróðirinn hlutu verðlaunaféð á hagstæðari innbyrðis úrslitum.

Úrslitin og spilin má sjá hér

Þegar litið er yfir stigatöfluna gæti einhver sagt sem svo að veðrið hefði verið Rangæingum fremur óhagstætt mótsdaginn, þar sem ferðaveður var með ágætum en eins og dæmin sanna eru útsveitarmenn á Selfossi fremur veðurhræddir og linir til ferðalaga.  

En að öllu gamni slepptu er sigurvegurum í mótinu óskað innilega til hamingju með sigurinn!!!   Bridgefélag Rangæinga þakkar eftirtöldum aðilum stuðning við mótið:  Verslunin Kjarval, Sláturfélag Suðurlands og MS.   Þá fær Katrín Aðalbjörnsdóttir hjá Golfklúbbi Hellu á STRÖND, sérstakar þakkir fyrir gott atlæti á mótinu.

Stjórn Bridgefélags Rangæinga óskar þér og þínum farsældar á komandi ári og þakkar félagsmönnum og gestum skemmtilega spilafundi á liðnum árum.

 Gleðilegt nýtt ár!!!

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar