Rangæingar/Selfyssingar -- Glatt á hjalla á samvinnukvöldi

laugardagur, 2. nóvember 2013

Sl. föstudagskvöld héldu Rangæingar og Selfyssingar sameiginlega hið árlega minningarmót sitt um Samvinnuhreyfinguna (SÍS).   Í þetta sinn hittust menn á Heimalandi og var glatt á hjalla að vanda.

17 pör mættu til leiks og spiluðu 32 spil í 8 umferðum (Monrad).  Spilamennskan var á léttu nótunum, léttar veigar við höndina og léttir menn enduðu í efsta sæti.   "Blessuð yfirsetan bjargaði okkur" sagði kampakátur Bjössi Snorra og fékk sér duglega í nefið en þeir félagar, hann og Guðmundur Þ. Gunnarsson, áttu erfiða fyrstu setu gegn grimmsterkri andstöðu.  Þeir náðu vopnum sínum á ný í yfirsetu í 2. umferð og komu loks í mark á 65,1% skori.  Næstir urðu Helgi Hermannson og Sigfinnur Snorrason með 58,0% skor en í 3ja sæti höfnuðu kempurnar Garðar Garðarsson og Sigurður Skagfjörð með 57,6% skor. Eftirtektarverð er árangursrík samvinna Rangæinga og Selfyssinga í pörunum í 2. og 3. sæti og svo skemmtilega vill einmitt til að Helgi og Sigurður eru báðir menntaðir Samvinnumenn, námu báðir Samvinnufræðin í Samvinnuskólanum á Bifröst seint á síðustu öld.   Eðlilegt að þeir kæmu sterkir inn á þetta minningarmót. 

Úrslitin og spilin má sjá hér.    

Menn og konur eru strax farnir að hlakka til þessa skemmtilega móts að ári, því að öðrum spilasamkomum ólöstuðum er þessi einhver sú allra skemmtilegasta.

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar