Jón Baldursson - minningarorð

þriðjudagur, 26. september 2023

Ég kynntist Jóni Baldurssyni fyrst þegar ég var að byrja að spila á Laugarvatni fyrir 32 árum. Ég tók strax eftir að þarna var á ferðinni leiðtogi. Það báru allir svo mikla virðingu fyrir Jóni, ekki bara sem spilara heldur líka sem persónu sem var til í að gefa af sér og kenna öðrum. Á sama tíma var keppnisskapið svo mikið að það var ljóst að það væri aldrei gefið eftir.

 

Árangur Jóns við Bridgeborðið er einstakur, hann er heimsmeistari og verður minnst sem eins af allra bestu spilurum heims.

 

Við í Bridgehreyfingunni þökkum fyrir að hafa notið krafta hans og sigurvilja sem smitaði svo sannarlega út frá sér. Jón Baldursson var besti bridgespilari Íslands fyrr og síðar, um það eru allir sammála. Hann varð 16 sinnum Íslandsmeistari í sveitakeppni í bridge og 6 sinnum Íslandsmeistari í tvímenningi. Jón varð Norðurlandameistari 5 sinnum og spilaði fyrir hönd Íslands yfir 600 landsleiki. Hann vann Generali master, óopinbera heimsmeistarakeppni í einmenningi árið 1994, vann Transnational sveitakeppni, heimsmeistarakeppni í blönduðum flokki árið 1996 og varð tvisvar Norður-Ameríkumeistari. Hann varð heimsmeistari í bridge er íslenska sveitin vann Bermuda Bowl árið 1991 í Yokohama. Jón Baldursson er í “Hall of Fame” Evrópska Bridgesambandsins.

 

Það er kannski dæmi um keppnisskap Jóns að þegar ég fyrir hönd Iceland Express gerði samning við Bridgesambandið þá átti Jón sem starfsmaður Icelandair erfitt með að kynna samkeppnisaðila fyrirtækisins sem hann vann hjá. Jón vildi nefnilega alltaf vinna.

 

Ég tók upp þráðinn aftur við Jón þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri Bridgesambandsins. Það var gott að leita til Jóns og Ellu um ráð, alltaf voru þau til í að hitta mig, ráðleggja mér og veita mér stuðning. Ég fann svo sannarlega hvað framtíð bridge á Íslandi skipti þau miklu máli. Jón tók að sér starf landsliðseinvalds á síðasta ári í veikindum sínum og var ekkert gefið eftir. Metnaður og keppnisskap Jóns var þannig að ekkert stoppaði hann, ekki einu sinni erfið veikindi.

 

Það er stórt skarð hoggið í Bridgehreyfinguna, okkar besti maður er fallinn frá en Jón skilur svo sannarlega eftir sig arfleifð. Hann gerði alla í kringum sig betri og náði árangri sem mun fara í sögubækurnar sem eitt af mestu afrekum íslendinga í keppnisíþróttum.

 

Við þökkum fyrir framlag Jóns Baldurssonar og það verður aldrei fullþakkað. Ég sendi fjölskyldu Jóns Baldurssonar mínar innilegustu samúðarkveðjur og þakka af auðmýkt fyrir þann stuðning sem Jón fékk frá Ellu og fjölskyldunni í sinni vegferð sem við öll í Bridgehreyfingunni höfum fengið að njóta. Heimsmeistari sem skilur eftir sig svo mikið.

 

Fh Bridgesamband Íslands Matthias Imsland

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar