Rangæingar -- Sól skín skært á Skalla-grímsmenn

miðvikudagur, 22. janúar 2020

Sl. þriðjudag var haldið á Heimaland til að leika umferð 2 í sveitakeppninni, hvar eigast við 6 sveitir.

Það skiptust á skin og skúrir í leikjum kvöldsins, einhver myndi kannski tala um alvöru skýfall, fremur en skúrir.   Pör voru óþekkjanleg milli hálfleikja, þó hvergi eins og liðsmenn í sveit Hallfreðar vandræðaskálds.   Þar uðu alvöru vandræði.    Menn gengu til leikhlés með 49-15 forystu á Víga-Glúm.   Yfirskáldið bað menn sína að spara kraftana í seinni hálfleik, enda væri óþarfi að drepa Víga-Glúm.   Skynsamlegra væri að koma vel innstilltir í næstu umferð að viku liðinni, enda biði þar erfiður leikur.

En fyrr mátti nú hægja á en setja á fullt afturábak.  Í seinni hálfleik var engu líkara en heilagur andi hefði yfirgefið liðsmenn Hallfreðs í leikhléinu og haldið til annarra starfa.   Menn virtust hreinlega andsetnir. "Aldrei séð svona blað, hlýtur að vera af öðru borði" sagði séra Halldór að uppgjöri loknu.   Þegar presturinn var búinn að leggja saman tölurnar í sínum dálki og stemma þær vandlega af, var samtalan 0 impar en Víga-Glúms megin voru 87 impar.  Leikurinn tapaður, 2-18.   "Þarf að ræða þetta við minn mann við rúmstokkinn í kvöld" stundi séra Halldór.

Grettir sterki, sem byrjaði mótið á góðum sigri í fyrstu umferð virtist á hraðri niðurleið.  Í hálfleik var sveitin undir 5-55 gegn Finnboga ramma.   En Finnbogi, sem var svo rammur í fyrri hálfleik, virtist hafa sett upp þykka ullarvettlinga í hálfleik því vettlingatökin voru algjör í seinni hálfleik.  Niðurstaðan var í ágætu samræmi við þykkt vettlinganna.  Seinni hálfleikur tapaðist 71-17 og leikurinn þar með 9-11 Gretti sterka í vil.

Miðað við þessar sveiflur er leikur Skallagríms og Hrafnkels freysgoða vart í frásögur færandi.  Öll vötn steymdu lygnt til Skallagrímsmanna sem unnu báða hálfleiki næsta örugglega og leikinn 18-2.   Skallagrímur tók þar með forystuna í sveitakeppninni með 30 stig.  Næstir koma liðsmenn Grettis sterka með 27 stig.

Úrslit leikja og stöðu í sveitakeppninni má sjá hér.

Butler úr fyrri hálfleik hér og þeim seinni hér.   Staðan í Butlernum eftir 2 umferðir er svo hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar