Rangæingar -- Fyrstu deildar leikmenn

miðvikudagur, 20. nóvember 2019

Sl. þriðjudag gerðum við Rangæingar okkur ferð á Heimaland.  Þar er gott að vera.   Erindið var að leika 2. umferð í Butlertvímenningi félagsins.   Það tókst bara skínandi vel til, 11 pör mættu til leiks.

Um liðna helgi vann sveit Rangæinga sig upp um deild og leikur í efstu deild að ári.   Á Heimaland mættu þrír leikmenn úr sveitinni.  Þeir komu í hlað í opnum bíl og veifuðu fólkinu á leiðinni upp heimreiðina. Þessir menn stóðu upp úr að leikslokum.  Billi, sem skipar akkerispar sveitar Rangæinga, náði fyrsta sæti með 49,5 impa í húsi.   Með honum þetta kvöld lék Garðar og gerði það vel. "Ég er líka óþreytandi að leiðbeina kallinum" sagði Billi.   "Ég var reyndar orðinn syfjaður í 7. umferð og þá komumst við fyrst í gang.  Virðist henta mér vel að vera syfjaður við störf." 

"Nei, ég sendi aldrei neina aura til Namibíu og enginn kontóristi hjá mér heldur" sagði Gísli aflaskipstjóri og fyrrum kvótakóngur kátur með úrslit kvöldsins.   Gísli er einmitt annar helmingur þungavigtarparsins í sveit Rangæinga.  Þriðji spilarinn úr efstudeildarsveitinni spilaði svo við Gísla þetta kvöld, því Strandamaðurinn skipaði 3ja par sveitarinnar, svona uppfyllingarparið.   "Já, þið stóðuð ykkur bara vel um helgina" sagði Billi yfirRangæingur.   "Leyfðum ykkur að vera með en létum ykkur auðvitað ekki spila of mikið, rétt svona á meðan við þessir betri fengum okkur tesopa.   Vonuðum svo bara að þið ylluð ekki of miklum skaða á meðan, sem erfitt yrði fyrir okkur sérfræðingana að vinna upp".  Útgerðarmennirnir lönduðu 27,5 impum á Heimalandi og urðu í 2. sæti.

Þriðju urðu Moldnúpsvertinn og Skógabóndinn, góðir að vanda, með 24,2 impa skoraða.

Úrslit og spil má sjá hér

Stöðuna í butlernum eftir tvö kvöld af fimm má svo sjá hér 

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar