Rangæingar -- ...en Gunni Þórðar er betri

fimmtudagur, 31. október 2019

Sl. þriðjudag lukum við Rangæingar við mánaðarlanga upphitun.   Til leiks mættu 11 pör.  Á þessu síðasta upphitunarkvöldi byrjuðum við á því að skokka létt í hús, hlaupa svolítið í spik og enduðum á léttum lyftingum með kaffibolla.    

"Jú, jú, hann er góður strákurinn en Gunni Þórðar er betri, alt svo á gítarinn.  En þetta dugði vel í kvöld", sagði Karl Hermannsson, fjöllistamaður, að leikslokum.   Spilastjórinn missti spilmennina og rak því hratt frá baujunni eftir að stórspilarnir og alþýðuhetjurnar Gísli og Þórður hleyptu heimdraganum og fóru til Madeira.   Man ekki hvaða erindi þeir áttu þangað en minnir að það tengist eitthvað árlegri lúdókeppni þar.    Þá var að svipast um í sveitinni og uppi í Holtum fannst fjöllistamaðurinn á fletjum, hvar hann situr á hestabúgarði sínum, Suðurgaffli (svona Southfork, ef einhver man eftir því).

Eins og menn vita er Keflvíkingnum Kalla margt til lista lagt.   Var landsliðsmaður í fótbolta um árabil og náði í upphafi landsliðsferilsins að leika  með Rikka Jóns, Þórólfi Beck og Helga Dan.   Þá var Kalli í Hljómum á sínum tíma.   "Já, ég er liðtækur í flestum greinum en var þó einna sístur í ballet".

Guttarnir náðu í 72,9% skor, sem verður að teljast í lagi.    2. sætið féll prestinum og meðhjálparanum í skaut, 63,8% skor.  "Gott að fá drenginn aðeins í heimsókn, hann fer svo vel með hempuna" sagði séra Halldór.  "Svo bar hann það utan á sér að hann er ekki illa haldinn þarna vesturfrá.  Spilaði líka þétt" Þriðju í mark voru Svavarnir tveir með 55,8% skor, enda annar Svavarinn nýkominn úr stífri æfingaferð í Svíþjóð.   "Honum veitti nú bara ekkert af þessu drengnum" sagði hinn Svavarinn og fékk sér duglega í nefið.

Eins og áður sagði er upphitun nú lokið og verður er verkamaðurinn launanna, því næst er ölkvöldið hið fyrsta á tímabilinu.  Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta einn bjór og sumir meira, allt eftir því hvernig liggur á spilastjóranum.

Úrslit og spil má sjá hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar