Rangæingar -- Undir sýslumannsfrúnni

miðvikudagur, 27. febrúar 2019

Sl. þriðjudagskvöld var ölkvöld á Heimalandi, þar sem allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta einn bjór.  Til leiks mættu 11 pör og léku 28 spila barometer.

"Illt er hlutskipti mitt að lenda svona undir sýslumannsfrúnni" sagði Gísli Árnesingur og barðist við að draga andann, eftir að úrslit voru kunn.   Gísli leysti Héraðshöfðingjann af, sem sat veðurtepptur á setri sínu að Birnufelli á Héraði.  Baráttan um stærsta bjórskammtinn var hörð en frúin og Sigurjón vinnumaður höfðu betur en trillukarlarnir á lokasprettinum og luku leik með 65,1% skor.   Hetjur hafsins og þjóðkunnir aflaskipstjórar, Sigurður og Gísli, urðu svo í 2. sæti, með 61,5% skor.  Undan Sýslumannsfrúnni heyrðist kveðið djúpum róm:

"Þó fokið sé í skjólin flest

fast samt held í trúna

Held ég fyrir hafi rest

að hífa mig upp á frúna".

Þriðju urðu svo dýravinirnir, Björninn og Örninn, með 51,0% skor.   Fjórði í mark kom svo þríflokkskappinn, séra Halldór, með meðhjálparinn sér til stuðnings, með 50,9% skor.  

Aðrir fengu minna en þó öngvir minna en formaðurinn og Tottenhamtröllið, sem enduðu með 39,6% skor.  "Flugþreyta" sagði formaðurinn nýkominn frá Tene.   "Munið bara hvað ég var góður áður en ég fór út, þá var ég sko með 68% skor".   Þó er það ekki fyllilega rétt að þeir hafi fengið minna, því heiðurssætið gefur 2 bjóra á mann.  "Hva, heldur þú að ég hafi ekki vitað það" bætti formaðurinn við.

Úrslit og spil má sjá hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar