Rangæingar -- Feðgar á ferð og flugi

miðvikudagur, 24. október 2018

Eftir að hafa hrakist niður í Gunnarshólma þriðjudaginn fyrir viku, trúlega vegna fundar samtaka fiskvinnslustöðva í Rangárþingi, heimtum við heimavöll okkar aftur sl. þriðjudag og settumst þar að spilum.   Eins og íþróttamenn þekkja er talsvert erfiðara að leika á útivelli en á heimavelli.  Það fékk skrásetjari t.a.m. að reyna á eigin skinni, endaði í öðru sæti, eeeeehhhhhhh, neðan frá talið.   M.a.s. tæknibúnaðurinn kunni ekki vel við sig á útivelli.   Tölvan fraus og tvö síðustu spilin færðust aldrei til bókar og fuku út í landsynning Landeyjanna.  Enginn veit því almennilega hvernig fór í raun það kvöldið en skrásetjari trúir því einlæglega að þetta hafi verið bestu spil okkar félaga og nokkurn veginn, um það bil, úrslitin hafi alls ekki gefið rétta mynd af frammistöðunni.  Þegar trúin ein er eftir.

En feðgarnir, eða við höldum að þeir séu feðgar enda líkir á velli og báðir ljóshærðir, kunnu vel við sig í útsynningnum í Gunnarshólma.    Sá eldri, séra Halldór Gunnarsson, missti meðhjálparann Mikkelsen á fardögum til vetursetu og kristniboðs í Grundarfirði.  Presturinn tók því undir sinn verndarvæng ungan dreng og hirðskáld okkar, Magnús Halldórsson.   Hefur verið að hreyfa hann svolítið í haust og gera hann vakran. Presturinn tók m.a. saman svolítið ritningakver um Prestasjónið sem Magnús ber með sér og lítur í sér til hugarhægðar, þegar spurningar vakna um lífið og tilveruna.  Kverið er á tveimur síðum og framan af þurfti lítið á seinni síðunni að halda.  En að því kom í Gunnarshólma.    Presturinn spurði um ása á 4 laufum.   Skáldið leitaði á forsíðunni en fann ekkert.  Sneri því við blaðinu en þar var ekkert, utan gömul líkræða frá prestinum, þar sem stóð m.a.:  "Hann vakti meðan aðrir sváfu.  Það sem aðra vantaði, það fannst hjá honum".    En eitthvað varð að gera, skáldið skaut á 6 grönd.  Og viti menn, gulltoppur, enda aðrir í 6 spöðum á 5-3 fit.

Talandi um skáldið.   Magnús tók eftir lítilli frétt á dögunum, þess efnis að ung kona, Guðrún Sigurðardóttir, væri mjólkurbílstjóri hér á Suðurlandi.   Þetta fannst honum tímanna tákn og mælti (með leyfi forseta):

Þróun er á fleygiferð

við fögnum breytta stílnum

Bjössi heima í grautargerð

og Gunna á mjólkurbílnum.

Úrslit kvöldsins urðu annars þau að skrásetjari og hans góði makker unnu með 65,4% skor, enda á heimavelli.   Presturinn og skáldið komu næstir í mark með 60,4% skor enda ekki þörf á ásaspurningum það kvöldið.  Þriðju inn urðu svö Örninn eðalknái og Tottenhamtröllið með 58,3% skor.

Úrslit og spil má sjá hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar