Rangæingar -- Ölkvöldið hið fyrsta

miðvikudagur, 28. febrúar 2018

Það var létt yfir Rangæskum spilurum sl. þriðjudag, enda ölkvöld þar sem veitt er blautleg verðlaun fyrir alla flokka.  13 pör mættu til leiks og léku 28 spila Barómeter.

Verðlaunahafar:  

Heiðurssætið:  Öryggir sigurvegarar með 35,8% skor. Sigurjón og Sigurður sýslumannsfrú.   Þeir félagar vissu að vísu fyrir að fyrir þetta sæti fást aukaverðlaun, 2 dósir.   Settu því stefnuna strax á þetta sæti, enda finnst þeim appelsín góður drykkur.  Þeim varð ekki ógnað og sætið var aldrei í hættu.

Vonbrigði kvöldsins:  Þann flokk unnu Skógabóndinn og vertinn nokkuð sannfærandi með 42,1% skor.   Fleiri gerðu þó tilkall til þessara verðlauna og þó nærri lægi, náði enginn að bæta þennan glæsilega árangur þeirra bræða.

Njáluflokkur:  Runólfur og Óli, 43,3% skor.   Einir í þessum flokki, svo þeir áttu sætið víst.

Gamlir sótraftar:  Á sjó voru dregnir a.m.k. tveir gamlir sótraftar þetta kvöld. Ekki var erfitt að fá þá að borðinu það kvöldið, enda öl í boði.  Sigurvegarar með 44,2% skor, þeir Biggi og Tottenhamtröllið ógurlega.   Tröllið vill enginn hitta í myrkri, frekar en önnur troll, og allra síst við Arsenalmenn sem megum muna okkar fífil fegri.   Orðinn hnípinn og sölnaður.

Kvennaflokkur:   Kanastaðabændur unnu flokkinn örugglega, enda Sólveig eina konan í hópnum. Eiríkur grásleppur í flokkinn, enda skegglaus, eins og sveitungi hans Njáll var forðum.  47,1% skor.

Kráarspilarar frá Hull og Grimsby:   Skipstjórinn kom heim, sá og sigraði þennan flokk, eftir langdvalir í Hull. Er á leið á næsta mót kráarspilara, sem haldið verður í Cuxhaven í vor. 49,3% skor.

Tottenhamsætið:   Niðurlægjandi fyrir Arsenal mann að lenda í Tottenhamsætinu, þ.e. með minnsta mínusinn frá 50% skori.   Sigurvegarar af talsverðu öryggi, Sigurður og Torfi, 49,6% skor.   Bestir í annari deild.

Nýliðaflokkur:  Minkabændurnir úr Neðra-Dal mættu pelsklæddir til leiks og unnu flokkinn glæsilega, 50,0% skor.

Menn á uppleið:   Elli og Kalli komu sterkir inn í þennan flokk, voru á uppleið allt kvöldið eftir vonda fyrstu setu, 52,9% skor.

Og þá er komið að stóru stákunum:

4. sætið:  Karl og Jói.   Báðir vanir hestamenn, þó það komi þessu nú ekki við.  53,2% skor.

3. sætið:  Prestakallarnir, Hallldór og Kristján, 55,4% skor.  Meðhjálparinn las ritningarorðin af festu og presturinn fylgdi þeim eftir með þrumandi predikun.   Söfnuðurinn lét glaður stig af hendi rakna. 

2. sætið:  Grimm-bræður.  Nýtt ævintýri í hverri viku.  "Ég er orðinn svo góður að það liggja allar svíningar hjá mér og engin vötn falla til Dýrafjarðar lengur, bara bjór í baukinn minn" sagði Svavar og tók við verðskulduðu magni af bjórbaukum.

1. sætið:  Hæglætismennirnir og alþýðuhetjurnar Björn og Eyþór, 64,3% skor. 

Úrslit og spil má sjá hér

Næsta þriðjudag hefst aðaltvímenningur félagsins, Samverkstvímenningurinn.

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar