Rangæingar -- Saxinu beitt

miðvikudagur, 24. janúar 2018

Sl. þriðjudag var leikin 3ja umferð í sveitakeppninni.

Krúttmolarnir í Bangsímon tóku loks til verka og fyrir valinu varð Morgan Kane.  Morgan Kane er sjálfsagt farinn að eldast og orðinn hægur með byssuna, alla vega kom hann engum skotum á Bangsímon sem fór af hólmi með rúm 18 stig en Kane ran af hólmi með tæp tvö stig á milli lappanna.   Bangsimon náði þar með Morgan Kane að stigum, sitja saman um miðja töflu.

Stjáni saxófónn átti stórleik á móti Njálssonum og sjaldan hafa þeir saxófónmenn blásið betur og fóru heim með 17 stig í lúðrinum en Njálssynir fengu illa á lúðurinn, með lúðrinum, og fóru niðurlúðraðir heim með 3 stig.

Sæfinnur sjókall er að sjóast.   Tóku veiðarfæri og vistir og réru á djúpmið.  Þar var Mikki refur fyrir og svo fór að refurinn ánetjaðist illa.   Sjókallinn tók 13 stig í sinn hlut en Refurinn varð að gera sér 7 stig að góðu.   Sjókallinn er þó enn á botninum, enda botnvörpungur að upplagi   Honum hefur þó vaxið fiskur um hrygg og kominn upp undir pilsfaldinn hjá næstu sveitum að sjóarasið, enda landlega.

Mikki refur er  talsvert laskaður eftir þessa útreið en segjast verður eins og er að peyjarnir í sveitinni eru að standa sig vel.  Þeir dröslast hins vegar með tvö gamalmenni með sér, sem virðast mega muna sinn fífil fegurri, talsvert fegurri segja sumir.  Að minnir skrásetjara á vísu eftir frænda sinn og gæti vel verið kveðið í orðastað gömlu refanna:

Finnst ég mega fífil minn

fegurri heldur muna.

Lítinn kraft í limum finn

og laus við náttúruna.

Nefna verður yfirsetukonurnar í sveit Litla Jóns.   Þeir spiluðu innbyrðis og ekki var neinn náungakærleikur þar.   Jóarnir tóku bræðurna Haukssyni til altaris og enduðu með 4,81 impa skoraða á móti þeim.   Ekki beint fallegt að fara svona með sveitunga sína en Skírisskógabóndinn sagði að leikslokum "Það þarf auðvitað að herða drengina".   

 Úrslit leikja og stöðuna í sveitakeppninni má sjá hér

Butler og spil úr fyrri hálfleik hér og úr þeim seinni hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar