Rangæingar -- Allt í skrúfunni

fimmtudagur, 11. janúar 2018

Sl. þriðjudag hófum við Rangæingar sveitakeppni félagsins með þátttöku 7 sveita.  Um árabil höfum við haft þann háttinn á að spilastjóri raðar í sveitir með það að markmiði að gera sveitakeppnina sem jafnasta.    Butlerútreikningi  keppninnar er á móti gert hátt undir höfði.  Efstu 3 sætin í Butler eru verðlaunuð sérstaklega í mótslok og verðlaununum ætlað að vinna á móti ofþornun verðlaunahafa.    Bronsstigapotti sveitakeppninnar er svo skipt þannig upp að 2/3 stiganna er úthutað á grundvelli butlerútreiknings hvers kvölds og 1/3 þeirra á grundvelli úrslita sveitakeppnisleikja og lokastöðu sveitakeppninnar.    Þar með laskast óverulega keppni okkar um meistarabikarinn sem stigahæsti spilari vertíðarinnar fær nafn sitt letrað á.

Við teljum að þessi aðferð okkar við uppstillinguna sé einn af lykilþáttum þess hve gott og skemmtilegt starfið er í félaginu, enda lítið gaman að mæta í 2 mánuði til spilamennsku og fara oftast, eða jafnvel alltaf, halloka í sveitakeppnisleikjum. 

Í þetta sinn er yfirseta en sveitin sem situr yfir spilar innbyrðis og tekur þannig þátt í butlerkeppni kvöldsins.

Spilastjóri byggir uppröðun sína í sveitirnar á hárnákvæmum, þróuðum, vel útfærðum og hávísindalegum aðferðum, tölfræði sem tekur vegið mið af árangri para á vorönn 2017, haustönn 2017 og loks 5 kvölda butlerkeppni félagsins sem spiluð er í lok haustannar.

Eftir úrslitum fyrstu umferðar að dæma tókst spilastjóra nú ekki vel upp við verkið og þarf líklega að yfirfara eitthvað útreikninga sína.   Sveitin Litli Jón, sem tekur nafn sitt af vinnumanni SkírisSkógabóndans, sem er fyrirliði sveitarinnar, tók sveitina Sæfinn sjókall, sem dregur nafn sitt af formanni sveitarinnar Torfa trillukarli, til bæna.  Útreiðin var slík að helst má líkja við trakteringar Hróa hattar á fógetanum í Nottingham forðum.   Úrslitin urðu 20-0.   Sæfinnur sjókall er nú í slipp, skorið verður úr skrúfunni og þess freistað að gera sjóklárt fyrir næsta róður nk. þriðjudag.

Sveitin Stjáni saxófónn, sem dregur nafn sitt af Kristjáni meðhjálpara Mikkelsen, átti líka góðan leik og kjöldró Bangsímon sem Bjorn Dúason leiðir.    Bjorn og Bangsímon eru einmitt líkir á velli, báðir einkar krúttlegir.  Leikurinn fór 17-3.

Í síðasta leik umferðinnar kom tölfræðispeki spilastjórans loksins að gagni, eini sæmilega jafni leikurinn í umferðinni.   Þar skipaði spilastjóri sér í sveitina Mikki refur en hana leiða minkabændurnir og feðgarnir í Neðra-Dal.  Mikki refur átti í höggi við Morgan Kane, sem er ættaður frá Kanastöðum en þar búa einmitt hjónin Eiríkur og Sólveig. Skpist var á skotum en þegar upp var staðið hafði Morgan Kane nokkru betur, 12-8. 

Spilastjóri hefur þó fulla trú á því að talnaspekin muni koma sterk inn þegar líður á keppnina, vonar það alla vega.  

Úrslit 1. umferðar í sveitakeppninni og stöðuna má sjá hér

Butler úr fyrri hálfleik hér og úr seinni hálfleik hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar