Rangæingar -- Úrslit jólamóts
Árlegt jólamót okkar Rangæinga var haldið í Hvolnum á Hvolsvelli í dag. Til leiks mættu 16 pör og spiluðu 44 spil.
Eins og menn vita hafa sauðfjárbændur glímt við alvarlegan rekstrarvanda og lagaðist lítið á þessu ári. Því var það samhljóða ákvörðunar spilafundarmanna að tímabært væri að bridgespilarar létu sitt af hendi rakna til úrlausnar þessa vanda. Og spilarar á mótinu létu ekki sitja við orðin tóm, heldur stilltu Birni bónda á Björk, eða BB-king eins og hann er kallaður á Suðurlandi, upp í efsta sætið í mótinu, svo hann fengi eins ríkulegan skerf af verðlaunafénu og nokkur kostur væri. "Ég er hættur við að hætta rollubúskap" sagði Bjössi kampakátur og gaf Höskuldi makker sínum í nefið. "Þessar aðgerðir hafa skilað meiru til lausnar á vanda okkar sauðfjárbænda en ríkisstjórnin hefur gert, og kaus ég samt Framsókn". Höskuldur, makker hans, naut góðs af þessum aðgerðum til lausnar vanda sauðfjárbænda og þó hefur hann ekki séð rolluskjátur lengi, enda bústjóri á Stóra Ármóti. Ármótaöðlingurinn greip til málsháttar; "Ber er hver á bakinu nema sér Björn eigi" og bætti við "Ekki er sopið kálið sem á diskinn er komið, það verður að borða með gaffli"
Ekki er vitað til að trillukarlar eigi í neinum sérstökum vandræðum og því áttum við okkur ekki á því hvernig Gísli Þórarinsson og Þórður Sigurðsson lentu í öðru sætinu en auðvitað er það alltaf svo að einhverjir njóta góðs af svo víðtækum aðgerðum og við gripum til, þó þeir þurfi enga aðstoð. Þetta vitum við Sjálfstæðismenn.
Þriðju inn varð hins vegar sauðfjárbóndinn Sigurður Skógabóndi, með Jóa sinn. Þessar aðgerðir okkar voru því afar markvissar og náðu vel til þess hóps sem á þurfti að halda. "Bjarkar-Bjössi stendur mikið verr en ég, svo ég vildi ekki taka meira til mín af almannafé" sagði Skógabóndinn og hrósaði Jóa í leiðinni fyrir að tína vel í. "Alltaf ertu nú bestur þegar þú ert blindur makker minn og þarft bara að tína í" sagði Skógabóndinn "en verra þegar við lendum í því óláni að þú spilir úr, þá áttu það til að týna slögum."
Fjórða sæti náðu svo menn sem báðust undan að verða nefndir á nafn í þessum pistli. "Háðung að ná ekki verðlaunasæti og bið þig að nefna þetta ekki við nokkurn mann" sagði Dúason og bætti við "Billi hefur oft verið betri en mér finnst hann farinn að eldast karlinn". Ekki orð um það meir.
Vert er hins vegar að nefna frábæran árangur Hjalta í Neðra-Dal, sem spilaði í fyrsta sinn við Stebba hreppstjóra á Flúðum, frænda okkar Rangæinga. Þeir félagar urðu í 5. sæti, eftir að hafa verið við toppinn lengi vel. Þeir áttu gríðargott mót guttarnir. Hjalti er einungs 30 ára, sem telst líklega að vera á leikskólaaldri í keppnisbridge nútímans og hefur einungis spilað í 3 ár eða svo. Virkilega glæsilegur árangur hjá þeim! Hjalti náði þar með í sín fyrstu silfurstig en örugglega ekki þau síðustu.
Næsti viðburður hjá okkur Rangæingum er TOPP16 einmenningurinn, þann 2. janúar nk. 16. maður verður Jón Baldursson, sem ætlar að heiðra okkur með þátttöku sinni í mótinu. Við hlökkum mikið til!
Bridgefélag Rangæinga óskar félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum nær og fjær árs og friðar og farsældar, ekki síst við spilaborðið, á nýju ári. Þökkum góðar stundir við græna borðið.
Úrslit og spil má sjá hér