Rangæingar -- Næsta spil
Við Rangæingar settumst við spil sl. þriðjudag að vanda. Á dagskrá fundarinars var að leika barometer, jólaölkvöld, með tilheyrandi verðlaunum í öllum mögulegum flokkum.
"Ansi varstu linur Sigurjón að lyfta ekki í slemmu" sagði séra Halldór við hægri handar andstæðing sinn og pakkaði spilunum í bakkann að loknu næst síðasta spilinu í setunni, "slemman stendur alltaf Næsta spil makker". Og menn tóku til við næsta spil. "Æ æ æ", sagði klerkurinn þegar meðhjálparinn skoraði á hann í geimið. "Mér list ekki á að reyna geimið Kristján minn, þú átt að spila spaðana" sagði klerkurinn og dró upp passmiðann. 3 spaðar voru því niðurstaðan. Útspilið var laufagosi. "Það er eitthvað að borðtölvunni" sagði meðhjálparinn "ég get ekki skráð spilið. Keppnisstjóri!" Nokkurn tíma tók að átta sig á vandanum, enda kannaðist enginn við borðið við spilið sem óspilað var talið. En svo rann ljós upp fyrir mönnum. Á einhvern óskiljanlegan hátt hafði þeim Bakkabræðrum tekist það ómögulega, að loknu spili, að setja spilin í bakkann, snúa bakkanum kvarthring á borðinu, taka spilin svo aftur upp, melda, spila út og leggja upp blindan, nema nú voru N-S með A-V hendurnar og öfugt. Og geimið náðist ekki einu sinni. Er þetta hægt Matthias?
Annars bar það helst til tíðinda þetta kvöld að loðdýrabændurnir og feðgarnir í Neðra-Dal, nýkomnir úr pelsun, sátu á efsta borði Monradsins allt kvöldið. Pelsuðu þar hvern andstæðinginn á fætur öðrum en ekki komust nú öll skinnin í fyrsta flokk, enda verið í miðgóðri fóðrun. Feðgarnir eru óvanir þessari stöðu og einhverjir andstæðingar komu höggi á þá. Því fór svo að lokum að þeir misstu vopn sín, orðnir vígamóðir á Einhamri, eins og Gísli Súrsson forðum. Þeir fóru því illa halloka í síðustu setunni, enda með iðrin úti, líkt og Gísli og hrundu niður töfluna. Engu að síður var gaman að fylgjast með þessum góða árangri þeirra feðga og þessi staða venst.
Verðlaun voru veitt í öllum flokkum. "Er ekki örugglega tvöfaldur skammtur fyrir neðsta sætið, eins og alltaf" spurði formaðurinn áður en sest var að spilum. Eftir jákvætt svar beindi hann orðum sínum að makker: "Við skulum stefna þangað, ég er half þyrstur". Og þeir Tottenhamtröllið náðu því markmiði af talsverðu öryggi með 36,1% skor.
Aðrir fengu meira, mest þó skipstjórinn og slátrarinn sem sigldu blíðan Monradbyr upp í fyrsta sætið með 59,6% skor, stigi á undan Porto Santo meistaranum Gunnari og Garðari flokksbróður hans og frænda en Gunnar hefur einmitt dvalið erlendis við æfingar sl. tvö ár eða svo.
Bridgefélag Rangæinga óskar félögum sínum og landmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju spilaári.
Úrslit og spil frá í gær má sjá hér