Rangæingar -- Blindsker og boðar

miðvikudagur, 13. desember 2017

Sl. þriðjudag börðumst við Rangæingar á Heimaland, gegnum kafaldsbyl, hvar ekki sá út úr augum.  Að vísu er þetta nú aðeins ýkt í huga Strandamannsins, sem kallar þetta nú bara hundslappadrífu, jólasnjó eða eitthvað ámóta meinlítið.    

Eftir fimm kvölda þrotlausa vinnu lukum við verkinu á áætlun, þ.e. að ljúka við 5 kvölda Butler félagsins.   Það gekk bara vel.  

Eftir hæga og varfærna siglingu gegnum rifið, fullt af blindskerjum og boðum, bætti skipstjórinn loks í og náði Sómabátnum  Torfa loks á plan.   Ýmsir varhugaverðir boðar og grynningar eru á siglingaleiðinni gegnum rifið.  Má þar nefna Ólboðann, sem er fremur lítill klettur, efst á Bergþórshvolsgrunninu og getur verið hættulegur, einkum ef lágsjávað er.   Gæta þarf sérstakrar varúðar við siglingu nálægt Ólboðanum, því ekki ber mikið á honum svona dags daglega.    Tröllið er líka stórhættulegur steindrangur, austarlega á formannsrifinu en það rif er snarbratt, norðarlega í Framsóknardýpinu.  Skipstjórinn sneiddi  Torfanum listilega fram hjá þessum mannskaðaboðum en hættulegasti drangurinn er þó Björninn.   Breiður klettastandur, sem stendur á litlu grunni, Billagrunni.  Yst á Billagrunni er svo lítill boði, Eyþórsoddinn, sem fáir steyta á en getur verið varhugaverður í miklu brimi.  Eyþórsoddinn er sjaldan á siglingaleið en Björninn er í miðri rennunni og þar hefur margan bátinn borið upp á.

Fáir renna færi á Billagrunni, enda lítið að fá þar, og hættulegt ef rekur upp á Björninn.    Þá bætist gjarnan veiðarfæratjón við fiskleysið á grunninu.

Svo fór að skipstjórinn rak hældrifið á Torfa harkalega niður í Björninn.  Drifið laskaðist nokkuð og því náði Torfinn ekki fullri ferð eftir það og kom í mark sjónarmun á eftir Birni Dúasyni og félögum.

Lokastaðan í 5 kvölda butler (4 bestu kvöldin telja)

   1) Björninn og félagar, 202,5 Impar

   2) Sigurður á Torfanum, 175 Impar

   3) Tottenhamtröllið og formaðurinn, 162,8 Impar

   4) Óli, goðorðsmaður á Bergþórshvoli, 94,3 impar.

 Minna var til fyrir aðra.

Úrslit og spil má sjá hér og lokastöðuna (öll 5 kvöldin talin) hér 

Næsti þriðjudagur er síðasta spilakvöld fyrir jól.    Þá verður gaman, annars er alltaf gaman í þessum góða hópi sem hér spilar, en sérstaklega verður gaman næst, því þá verður jólaölkvöld.    Verðlaun verða veitt í öllum flokkum og mikið gaman.

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar