Rangæingar -- Minningarmót um rússnesku byltinguna
Sl. þriðjudagur, 7/11 2017, var sérstakur hátíðisdagur hjá okkur bridgespilurum í Rangárþingi, því þennan dag fyrir 100 árum hófst rússneska byltingin Þess var minnst víða um heim í gær, nema þá helst í Rússlandi. Af þessu tilefni héldum við sérstakt minningarmót um rússnesku byltinguna með verðlaunum í takt við rússneskar hefðir. Að vísu ekki vodka en alla vega þar næsti bær við.
Fyrsti liður í hátíðahöldunum var koma spilastjóra og slátrarans en slátrarinn á einmitt í fórum sínum gamla Lödu Sport, rauða að lit vitaskuld, sem hann notar einungis 1. maí og 7. nóvember ár hvert. Var þeim félögum tekið fagnandi og mátti helst líkja andrúmsloftinu við hersýningu á Rauða Torginu. Um leið og slátrarinn steig út úr bílnum mælti hann:
Létt ég komst á Lödu Sport
leiðarenda á.
Enda bíll af bestu sort
Bolsévíkum frá.
Fyrir og eftir spil var Nallinn sunginn. Forsöngvari var klerkur vor og næstum því þingmaðurinn sera Halldór í Holti. Svo skemmtilega vill til að með árunum hefur klerkurinn skipt um stöðu á vellinum. Lék lengi vel á hægri kantinum við góðan orðstý en hefur nú fært sig inn á miðjuna, leikur vinstra megin á miðjunni, sem varnarsinnaður miðjumaður. Vel var tekið undir í söngnum.
Keppt var í fjölmörgum flokkum og allir fengu verðlaun við hæfi:
Flokkur öðlinga: Efstir og jafnir urðu alþýðuskáldin Elli og Kalli og Kristján og Einar. 42,1% skor.
Flokkur ungliðahreyfingarinnar: Eftir harða baráttu urðu sigurvegarar, Hjalti og Logi, 44,2% skor.
Flokkur úthaldslítilla: Langeftstir urðu Örn og Svavar með 44,6% skor. Sátu á efsta borði allt mótið en þraut örendið.
Flokkur fólksins: Sigurvegarar Halldór og Kristján með 45,0% skor. Voru að vísu einir í þessum flokki en hver er að telja.
Kvennaflokkur: Eiríkur Davíðsson og hans makker. 46,3% skor. Eiríkur er enn í pilsinu. Fer honum bara vel.
Flokkur fjárbænda: Efstir urðu Jói og Siggi með 48,6% skor eftir að það var skorið niður um 35%.
Flokkur frjálslyndra og Wintrismanna: Langefstir Diddi og Torfi, 48,9% skor. Sögðust samt hafa gert allt rétt og farið eftir öllum reglum.
Flokkur Njálupersóna: Runólfur á Bergþórshvoli og Óli, 52,5% skor. Skarphéðinn mætti ekki í minningarmótið, var að renna sér fótskriðu á Markarfljóti.
Flokkur unnunda klassískrar tónlistar: Sigurvegar Sigurjón og Siggi með 55,4% skor. Báðir eru liðtækir sellóleikarar, einkum Siggi.
Opni flokkurinn: Þriðju urðu Marxistarnir og kenningasmiðirnir Billi og Bjössi með 55,7% skor.
Í öðru sæti urðu sænsku jafnaðarmennirnir Svavar og Friðrik með 58,8% skor. Jytte bra!
Sigurvegarar þessa minningarmóts urðu svo Maístjörnurnar Sigurður og Torfi með 62,1% skor.
Fram þjáðir menn í þúsund löndum!
Úrslit og spil má sjá hér