Rangæingar -- "Ég þurfti ekki meira"
Þá er keppnistímabili okkar Rangæinga lokið vertíðina 2016-2017, a.m.k. hér á landi. Lukum vertíðinni sl. þriðjudag með páskaeggjamóti Krappa ehf., sem gaf verðlaunin. Til leiks mættu 12 pör og spiluðu 28 spil (4 spil í umferð) með Monrad fyrirkomulagi.
Veturinn er búinn að vera óvenju jafn og skemmtilegur, þó ekki sé hægt að segja að jafnaðarmennskan eigi almennt upp á pallborðið hér í okkar sveit. Man þó eftir einum samfylkingarmanni, ágætum manni alveg, en hann flutti að vísu burtu fyrir nokkrum árum. Hér í sveit eru hins vegar miklir samvinnumenn og glöggt mátti sjá það í vetur, hve vel menn unnu saman, allir sem einn, að stigasöfnun og gættu þess að stigin dreifðust sem jafnast. Staðan var því þannig fyrir síðustu umferð að fjórir spilarar gátu unnið Meistarakeppnina. Það var í anda vetrarins að einungis einn þeirra (Björninn breiðvaxni) fékk stig þetta lokakvöld, raunar síðasta stigasæti kvöldins, það fjórða, en það var líka nóg. Næsta sæti vermdu hins vegar reglubræðurnir Sigurjón og Siggi, 6 stigum á eftir Birninum. Hefðu pörin haft sætaskipti væri Meistarabikarinn nú á arinhillunni í Sýslumannssetrinu í Varmahíð. Svo jafnt var þetta.
Það fór vel á því í dymbilvikunni að presturinn okkar og meðhjálparinn hans úr Stóru-Mörk stigu loks í stólinn og lásu Passíusálmana yfir söfnuðinum. Einkanlega var lesturinn kröftugur yfir spilastjóra og gesti hans, langt að komnum prýðisdreng, svo kröftugur að þeir félagar voru kveðnir niður og hafa ekki sést síðan.
Prestakallarnir luku leik með 62,1% skor, þ.a. líklega 61,5% fengin frá spilastjóra. Næst bestir voru glerharðir fisksalarnir með 60,0% skor eða eins og Diddi segir "Ég kasta ekki steini úr glerverksmiðju" en svo skemmtilega vill til að hann starfar í einni slíkri. Þriðju inn urðu svo Njáll á Bergþórshvoli, sem að vísu gegnir nafninu Runólfur í seinni tíð, og Örninn eldfrái með 56,8% skor. Eins og áður sagði varð svo Bjorn stórtemplar frá Húsavik með Eyþór jógúrtgerðarmann, í fjórða sæti með 55,7% skor. "Ég þurfti ekkert meira" sagði templarinn hróðugur og lyfti bikarnum hátt á loft, "Mér dugði að hafa Sýslumannsfrúna undir mér í kvöld".
Næsta verk félagsins er svo landsleikur við Þjóðverja á heimavelli þeirra síðarnefndu í Hamborg þann 20. apríl nk. Spilastjóri á von á því að Özil verði í liði heimamanna, enda bridge róleg íþrótt.
Úrslit og spil má sjá hér