Rangæingar -- Stórum farmi fleytt í naust
Sl. þriðjudag settumst við Rangæingar að spilum á Heimalandi. Tókum okkur í hönd spil fjórðu umferðar af sjö í sveitakeppninni.
Bóndinn, sem leitt hefur sveitakeppnina, taldi sér óhætt að skreppa sjálfur af bæ og fela leiguliðunum að ná ilmandi töðunni í hús, af túnum prestsins. Það reyndist ekki vel, kotbændur eru ekki vanir orfi og ljá, auk þess sem presturinn tók þá til altaris og skipaði þeim að því loknu höstuglega af túnum sínum með einungis 2,90 stig. Presturinn horfði hróðugur á eftir þeim og settist makindlega í annað sætið. Þess skal getið að bóndinn er nú á hraðferð heim.
Fisksalinn fór æfðum höndum um vertinn í þessari umferð, tók innan úr þeim drengjum og flakaði fimlega með nýtingu upp á 17,10 stig. Þessi góði sigur lyfti fisksalanum í efsta sætið, en vertinn situr sem fyrr í botnsætinu.
Neyðarástand var í sveit slátrarans. Einn liðsmanna á meiðslalista og því varð að leita vestur fyrir Þjórsá eftir liðsinni. Þar fannst gamall slátrari sem enn á hníf . Hann mætti til leiks með vel brýndan hnífinn og aðstoðaði við fláningu og innanúrtöku á Formanninum. Stórgripurinn vigtaði 17,82 stig. Slátrarinn komst þar með upp í miðja deild.
Skáldið sat við spil úti í horni, sat þar yfir með hestamanninum og fylgdist með umferðinni, svona með öðru augunu:
Það var stórútgerðarbragur á fisksölum þetta kvöldið, en vertarnir voru venju fremur hljóðlátir
Vertinn kvaddi veikri raust,
vart í sinni hlátur.
Því farmi stórum fleytti í naust,
fisksalinn mjög kátur.
Brúnin var heldur betur uppi á slátraranum og hans fólki, enginn hefði orðið hissa þó rauður litur hefði sést á ermum, slíkur var atgangurinn.
Slátrarinn tók lífið létt
og lista takta sýndi.
Til sóma var´ann sinni stétt,
er saxið tók og brýndi.
Svipað var í teningum prestanna, enda virtist spilavítisglampinn bera helgisvipinn ofurliði að mestu.
Hér var ekki hempustress
og heldur engu kviðið,
er klerkastéttin klár og hress,
kvaldi bændaliðið.
Úrslit og spil úr fyrri hálfleik má sjá hér, úr þeim seinni hér en úrslit og staðan í sveitakeppninni er svo hér