Rangæingar -- Höfðingjar leiddust hönd í hönd

fimmtudagur, 5. janúar 2017

Sl. þriðjudag hófum við Rangæingar vorönnina.  Að vanda byrjuðum við á TOPP16 einmenning, þar sem 16 stigahæstu spilarar síðasta vetrar eiga keppnisrétt.   Að þessu sinni breyttum við örlítið út af þannig, að 15 stigahæstu spilarar síðasta vetrar mættu til leiks og við fengum til okkar góðan gest, Aðalstein Jörgensen, sem tók 16. sætið í mótinu.

Spiluð voru 30 spil í barometer formi, allir við alla.   Hver okkar heimamanna fékk því að spila 2 spil við heimsmeistarann og 4 spil í andstöðunni.    Skemmst er frá því að segja að einkar vel tókst til.   Aðalsteinn er enda slíkur ljúflingur að ekki var við öðru að búast.  

Frá fyrstu umferð skiptust þeir á toppsætinu klerkurinn káti og heimsmeistarinn knái og réðust úrslitin ekki fyrr en í síðasta spili.   Í næst síðustu umferð fékk heimsmeistarinn tvo toppa og útlitið var gott.   Svo kom síðasta umferðin.   Þar komst heimsmeistarinn í 2 nt í spili 30 og fékk átta slagi meðan víða fengust 12 slagir í 3 gröndum.   Þar með virtist klerkurinn kominn með sigurinn, enda góður í úrspilinu.  Og fleiri fengu von.  Slátrarinn var í andstöðunni við heimsmeistarann í síðustu umferðinni, hafði átt góðan endasprett í mótinu og var farinn að nálgast klerkinn og meistarann og eygði von.  Við 2 nt í spili 30 sá slátarinn að að sigurinn gat mögulega orðið hans, ef vel tækist til í síðasta spili.   Hann brýndi hnífana, nú yrði vel til að takast.   Spil 29 var nú tekið úr bökkunum.   Heimsmeistarinn og glerskerinn komust í 4 hjörtu.  Slátrarinn hafði komið inn á 2 tíglum og nú var að duga eða drepast, litli hnífurinn var sóttur, 5 tíglar.    Glerskerinn lyfti í 5 hjörtu og slátrarinn sótti stóra hnífinn, DOBL.

Útspilið var tígulkóngur og þar með búið að brjóta slag á tígul, auk þess sem trompásinn var úti og óhjákvæmilegt að gefa slag á laufaás.  Heimsmeistarinn tók því spaðaás og spaðakóng, allir með og spilaði spaðagosanum (drottningin hafði verið í eigu sagnhafa og farið undir kónginn, enda kóngar alltaf notið kvenhylli).   En þá var slátrarinn rén og gat tromað en átti bara hjartaásinn.   Því sló trompásinn vindhögg og tígultaparinn fauk undir hann, svo heimsmeistarinn vann sitt spil, fékk topp og titilinn með. 

Heimsmeistarinn endaði því efstur með 117 stig og klerkurinn varð annar með 115 stig.  Ferðafrömuðurinn og Svíþjóðarfarinn önglaði saman 108 stigum, sem dugðu honum í þriðja sætið.

Eins og áður sagði leiddust þeir meistarinn og klerkur allt mótið.  Hirð- og stórskáldið okkar var því miður ekki með á þessu móti, enda í önnum við að horfa á fáklæddar konur, en smáskáldið var á staðnum og mælti að leikslokum:

Leikið víst hefur um fjarlæg lönd

Lagt þau að velli, oft verið bestur.

En í sveitinni leiddust þeir hönd í hönd

Heimsmeistari og prestur.

Við Rangæingar erum Aðalsteini afskaplega þakklátir að hafa glatt okkur með því að koma og spila við okkur.   Svona heimsókn lífgar og glæðir félagsstarfið í grasrótinni.   Aðalsteinn er svo sannarlega góður fulltrúi þeirra bestu og viðmót hans til algerrar fyrirmyndar.  Kærar þakkir fyrir komuna kæri vinur!

Þá eiga þeir aðilar þakkir skyldar sem tóku á móti heimsmeistaranum og Svölu, sem fékk að sitja í.   Torfi, Svavar og Ægir á Ægissíðu, sem tóku á móti þeim og sýndu þeim hellana á Ægissíður.   Hjalti í Neðra-Dal sem syndi þeim virkjun og minkabú þeirra feðga.   Kristján í Stóru-Mörk sem syndi þeim kúabúið í Stóru-Mörk.  Sérstakir þakkir fær Jói í Moldnúpi sem hýsti parið og bauð þeim og stjórn félagsins til kvöldverðar fyrir spilamennskuna.  

Úrslitin og spilin má sjá hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar