Rangæingar -- Björninn var ekki unninn

miðvikudagur, 2. nóvember 2016

Sl. þriðjudag settumst við Rangæingar að spilum að Heimalandi og tókum fyrstu votverðlaunakeppni vetrarins.  Til leiks mættu 12 pör og lékum við 28 spila Barómeter með Monrad fyrirkomulagi.

Keppt var í fjölmörgum flokkum.   Af einstökum úrslitum má nefna að flokk ófríðra unnu næsta örugglega Svavar og Jói, með 48,9% skor.  Bjór á þá.   Flokk fallega fólksins unnu fríðleiksmennirnir Sigurjón og Siggi með 52,9% skor. Tveir bjórar á þá, enda vilja allir vera góðir við fallega fólkið. Í flokki Framsóknarmanna mættu færri pör til leiks en oft áður, af einhverjum ástæðum.   M.a. vantaði okkar ástsæla formann sem við höfum reyndar ekki séð síðan á flokksþingi flokksins og höldum helst að sé enn í önnum við að reyna að sætta stríðandi fylkingar, enda minna átökin í flokknum helst á ástandið á landinu um miðja 16. öld þegar norðanmenn (Hólabiskup) og sunnanmenn (Skálholtsbiskup) deildu hart um hvað teldist réttmæt trú á Íslandi.   Ekki voru veitt verðlaun í þessum flokki, menn gátu ekki komið sér saman um sigurvegara.   Í flokki Samfylkingarfólks mætti enginn til leiks, af eðlilegum ástæðum.

Ekki unnu Rangæingar Björninn þetta kvöld, fremur en svo oft áður.  Björninn gerði nokkrar breytingar á liði sínu fyrir leikkvöldið og mætti með Eyþór ílagnarmeistara en hvíldi hirðskáldið. "Mér fannst kallinn þreyttur og svo fannst mér líka duga að mæta með Eyþór" sagði Björninn hróðugur um leið og hann tók gúlsopa af fyrsta bjórnum af sex úr verðlaunafénu.    Skáldið sat því heima en sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Kona mín er ekki á sama máli og ég með dönskukunnáttu mína.  Fyrir nokkrum árum tók ég á móti dönum að hausti, það hafði kólnað í veðri og sáust góð skil á mótum láglendis og hálendis, ég var á ferð með fólk á hestum. Ég orti þá vísu í stundarhrifningu og snaraði yfir á dönsku. Félagar mínir ótrúverðugir segja að þýðingin hafi verið svona.

Tí nu stille, teik a lúkk,
ta má ingen bíðe.
Heklan er só helvede smúkk,
hafiði séð´ana hvíðe.

Á íslensku var hún svona.

Heklu megið hérna sjá,
háa í landi strýtu.
Lyftið höfði lítið á,
landið ofið hvítu.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Björninn og Eyþór enduðu með 60,0% skor og sex bjóra á mann.  Alþýðufylkingarmennirnir Jói og Siggi komu næstir með 58,9%  skor (4 bjórar á mann) og frambjóðendurnir Halldór og Kristján urðu þriðju með 53,6% skor. (3 bjórar á mann).  

Úrslitin og spilin má sjá hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar