Rangæingar -- 30 kílómetrar

miðvikudagur, 9. nóvember 2016

Sl. þriðjudag hófum við Rangæingar leik í sex kvölda BUTLER með þátttöku 13 para.  

Skógabóndinn hægláti og Moldnúpsvertinn hafa verið á mikilli siglingu undanfarið, einkum eftir að bóndinn lauk við að smala saman sauðum sínum.  Því kom engum á óvart að þeir urðu hlutskarpastir þetta fyrsta kvöld, með 231,8 (Imps-across the field) í farteskinu.   "Hvað er þetta drengur, keyrir þú 30 kílómetra á kvöldi til að segja pass!" sagði vertinn með þjósti við Skógabóndann.   Skógabóndinn hægláti lagði frá sér spilin, tók af sér gleraugun og fægði þau lítillega.  Leit svo á vertinn og sagði "Já væni minn, mér hefur sýnst farsælla að vera í heldur lægri samning en hærri, þegar þú átt að spila úr". Tók svo upp spilin aftur og setti gleraugun á nefið "Þú átt að segja góði". 

Næstir í mark, flestum að óvörum og einkum þeim sjálfum, komu útgerðarmaðurinn og slátrarinn með 102,9 impa. Þriðju urðu svo Bergþórshvolsbræðurnir, Runólfur og Óli, með 99,7 impa.

"Ég skildi ekkert í því hvurslags tröllatrú karlinn virtist hafa á mér" dæsti skálið.  "Ég er auðvitað einkar góður spilari en get samt ekki breytt vatni í vín".   Þegar betur var að gáð kom í ljós að skáldið hafði tekið prestakallakerfið með sér til leiks en hann hefur spilað svolítið við prestinn í lausaleik í haust.  Björninn var hins vegar með Vínarkerfið upp á vasann og því var nokkur meininamunur í opnun á 1 grandi.    Þegar skáldið opnaði keikur á 1 grandi, sem prestakallarnir nota veikt en er yfirsterkt í Vínarkerfinu, lyftist brúnin á Birninum sem setti skáldið því iðulega í vonlaus 3 grönd.  Niðurstaðan varð eftir því, 3ja neðsta sæti.    Skáldið lét þó engan billbug á sér finna, leit yfir úrsllitin og mælti:

Endapunktur alveg skýr,

ekki voru að slóra.

Því sauðabóndi sett´í gír

með sínum hótelstjóra.

Úrslitin og spilin má svo sjá hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar