Rangæingar -- Vænir sauðir

miðvikudagur, 5. október 2016

Nú er haustverkum að mestu lokið hjá okkur Rangæingum, skip komin í naust og fé komið af fjalli.   Ágætar heimtur voru hjá okkur við spilaborðin að Heimalandi sl. þriðjudag og fagnaðarfundir.  

Til leiks mættu 13 pör og léku hvert við annað 22 spil, rétt til að hita upp fyrir komandi vertíð.   Fé kom almennt vænt af fjalli eftir afburða gott sumar og haust.  Þó komu tveir sauðir áberandi vænir af fjalli, enda gengið í fjarlægum högum í sumar.  Annar um lynghaga Strandasýslu og hinn í grösugum dal austur á Héraði.  Þeir komu einkar þróttmiklir til leiks og leiddu hópinn að leikslokum með 78,7% skor.   Elstu menn, sem enn muna eitthvað á annað borð, muna hreinlega ekki annað eins skor, sannkallaðir forystusauðir drengirnir.  

Þó báðir kæmu nú fremur rýrir af fjalli enduðu öðlingarnir Runólfur og Óli Jón með 62,5% skor í öðru sæti.  

 Í þriðja sæti urðu svo presturinn og skáldið með 60,3% skor.  Báðir eru þeir all vænir og vænstu menn að auki. Samanlagður fallþungi þeirra félaga í sætin losaði um 200 kg., sem þykir vænt hér um slóðir.

Úrslit og spil má sjá hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar