Rangæingar -- Björninn og skáldið

miðvikudagur, 26. október 2016

Eftir að hafa endurheimt heimavöll okkar Heimaland úr höndum innrásarmanna, komum við Rangæingar þar saman sl. þriðjudag til að ljúka upphitun fyrir veturinn.    Telst nú full upp hitað og menn og kona orðin klár í átök vetrarins. Eyþór allsherjargoði var fjarverandi, þurfti að vakna snemma daginn eftir til að huga að ílögninni og koma henni á markað.   Það gera það ekki aðrir betur en Eyþór, mjólkin er virklega góð hjá honum.   Björninn var því munaðarlaus en fékk hirðskáldið okkar með sér til leiks.     

Skáldið hefur fengist við margt gegnum tíðina.   Var lengi vélstjóri á sjó, ráðsmaður á búgarði, bóndi og hestamaður.   Lengst af steig hann þó fýsibelginn í eldsmiðjunni á Hvolsvelli og barði þar stál á steðja.   Tilsýndar er Magnus reyndar ekki ósvipaður fýsibelg á velli, enda bjó hann á Velli en það er önnur saga.  Magnus er nú sundlaugarvörður á Hvolsveli og unir sér þar einkar vel, enda sjálfur sagt að hann hafi aldrei verið á betri launum við að horfa á fáklæddar konur. 

Magnús er líka, líkt og skrásetjari, hógvær og lítillátur að eðlisfari, auk þess að vera eðlisvarkár.  Hann keppti fyrir hönd Rangárþings eystra í Útsvari á dögunum og kynnti sjálfan sig þannig:

Upp að telja er of langt mál

ýmislegt því talið get mitt fag

Lengi barið hef á steðja stál

en strípalinga passa ég í dag. 

Þeir Björninn höfðu ekki mikið fyrir því að landa sigri á þriðjudaginn, "ég svitnaði varla við þetta" sagði skáldið þegar hann leit með velþóknun á úrslitin.    Þeir félagar enduðu með 68,3% skor.   Næstir inn urðu trúbræðurnir og sálmasöngvararnir Sigurjón og Siggi með 60,4% skor.   Þriðju í mark urðu svo prestakallarnir með 56,7% skor, sem er heldur síðra hjá þeim en síðast sem er þó eðlilegt enda stutt í kosningar og frambjóðandinn í önnum við að leiðbeina fólki að kjósa rétt.

Næstkomandi þriðjudag hefst alvaran og þá leikum við einskvölds barometer með verðlaunum í fjölmörgum flokkum. 

Úrsltin og spilin má sjá hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar