Rangæingar -- Veðrabrigði

miðvikudagur, 17. febrúar 2016

Enn takast menn og konur á við spilaborðið á Heimalandi, heimavelli okkar Rangæinga.   Sl. þriðjudagskvöld var leikin 5. umferð af 7 í sveitakeppni félagsins.   Og skjótt skipast veður í lofti.

Mikið flug var í impum og þó hvergi eins og í leik toppsveitar Efstu-Grundar manna við drengina frá Neðri-Dal, þar sem 160 impar fuku undan sterkum vindum um borðin tvö í 28 spilum.   Efstu-Grundar menn leiddu mótið þegar umferðin hófst og hugðust auðvitað styrkja stöðu sína á toppnum.   En heldur snerust vopnin í höndum þeirra og þeger imparykið loks settist hafði drengjasveitin í Neðra-Dal unnið fullnaðarsigur 20-0.   Er þetta fyrsti leikurinn sem fer svo illa, nú eða svo vel eftir því hvaða augum menn líta silfrið.  Við þessi úrslit sigu Efstu-Grundar menn niður í 4. sæti en peyjarnir úr Neðra-Dal leysa þá af á toppnum.    Minnir uppganga Neðra-Dals drengja á upprisu Leicester, þar sem sveitin sat í fallsæti eftir 2 umferðir líkt og Leicester fyrir sléttu ári, en er nú komin á toppinn.

Þá náðu Gunnarshólmamenn loks vopnum sínum sem virtust framan af móti vera með öllu týnd.  Sýndist mönnum að eina áhaldið sem eftir væri í vopnabúri sveitarinnar væri bogi Gunnars á Hlíðarenda, en strenglaus.   Þó Magnus Halldórsson hafi komið í afleysingar þetta kvöld er hann ekki aflögufær um lokka, fremur en skrásetjari, svo trúlegra er að atgeir Gunnars hafi komið í leitirnar, fremur en lokkur hafi fundist í bogann þetta kvöld.     Varmahlíðarmenn áttu ekki von á svo kröftugum atlögum frá Gunnarshólmamönnum, atlögurnar komu þeim algjörlega í opna skjöldu.    Endaði þessi hólmganga þannig að sveitirnar höfðu sætaskipti í heiðurssætinu og rekur Sýslumannsfrúin nú lestina með sauði sína.

Veður hafa verið hörð í Rangárþingi í vetur, sem víðar á landinu.  Skáldinu fannst impaflugið við borðin líkjast helst snörpum veðrabrigðum og mælti:

Í Neðra-Dal var núna bjart

og nokkuð létt sú glíma.

Á Efstu-Grund var útlit svart,

aldrei sást þar skíma. 

Í Gunnarshólma góð var tíð,

hjá góðbændunum sprækum.

En volgnaði ekki í Varmahlíð

og vatnið fraus í lækjum.

Úrslit og stöðu í sveitakeppninni má sjá hér.  Spil og Butler úr fyrri hálfleik hér og þeim seinni  hér  Staðan í Butlernum er svo hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar