Rangæingar -- Sé ég með hattinn

miðvikudagur, 24. febrúar 2016

Enn æsast leikar í sveitakeppni félagsins og muna menn vart aðra eins spennu.   Einstaka kona telur sig þó muna eftir ámóta spennu í sínu ungdæmi og þá helst á hernámsárunum þegar borðalagðir dátar spígsporuðu um íslenska grund, einhverjum sprundum landsins til gleði en sauðskinnskóuðum ýtum flestum til ama.   Þegar ein umferð er eftir í keppninni munar einungis 0,19 stigum á sveitunum í fyrsta og öðru sæti og 2,61 stigi á eftstu sveit og þeirri í fjórða sæti.

Eins og menn muna biðu Efstu-Grundar menn afhroð í síðustu umferð, enda mætti Kalli Krúsjeff húfulaus til leiks og hvorki Elli né hatturinn komu heldur.   Ekki þurfti að spyrja að því að þannig útbúið lið getur ekki náð góðum úrslitum og féll sveitin með skelli í 4. sætið.   ´"Sé ég með hattinn" mælti Kalli um leið og hann settist við spilaborðið með rússneska hermannahúfu á höfði sem aldavinur hans Boris Smirnov hafði borið á vígvellinum við Leningrad, þegar Boris rak þýska túrista þaðan snemma á fimmta áratug síðustu aldar.

Þeir voru ógnvænlegir á að líta drengirnir Elli Smirnov og Elli Bonanza með höfuðfötin.   Skelfdir Gunnarshólmamenn áttu aldrei möguleika í leiknum við þá drengi og hröðuðu sér niður í botnsætið á ný en Efstu-Grundar öðlingarnir rifu sig upp í toppbaráttuna aftur og eru nú í 3ja sæti, 1,11 stigum frá efstu sveitinni.

Engu er um logið að keppendur bíða spenntir eftir síðustu umferðinni og er engin leið að spá fyrir um úrsltin.   Stöðuna í sveitakeppninni má sjá hér.   Spil og butler úr fyrri hálfleik hér og úr þeim seinni hér.  Staðan í butlernum er svo hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar