Rangæingar -- Hinir síðustu verða fyrstir

sunnudagur, 27. desember 2015

Kvöldið fyrir Þorláksmessu lukum við Rangæingar við 5 kvölda Butler haustins, með því að leika síðustu umferðina og sameinuðum hana árlegum jólabarómeter okkar, með verðlaunum sem sérstaklega var ætlað að passa vel með Þorláksmessu skötunni.   Þrátt fyrir að spilað væri kvöldið fyrir Þorláksmessu var mæting með ágætum, 13 pör mættu til leiks og leikinn var 28 spila Monrad barometer.  Einhverjir áttu eftir að skúra betur fyrir jólin, bóna bílinn aftur og strauja skyrtuna fyrir jólamessuna og mættu því ekki til leiks.

Áður en lengra er haldið þarf að rifja upp glæsilegt met sem sett var viku fyrr þegar Svavari Bólstaðabónda og Hesta-Jóa tókst með óskiljanlegum hætti að enda með 433 impa í minus.   Af því tilefni kvaddi Hesta-Jói sér hljóðs í upphafi kvöldins og greindi okkur frá því að eðlilegar skýringar lægju að baki óförum þeirra viku fyrr.   Til sönnunar hafði hann með sér eintak af DV, hvar á forsíðu var fyrirsögnin "Þeir bestu svindla".  Sagði hann þá Svavar hafa verið í stöðugri vinnu alla vikuna við að bæta sína getu.

Hófst svo spilamennskan og var fljótt ljóst að þeim félögum hafði orðið vel ágengt í vinnu sinni fyrr í vikunni.   Sátu þeir á toppnum nánast allt kvöldið og að leikslokum höfðu þeir nurlað saman 346 impum, nærri 90 impum meira en næsta par, Birgir og Örn, sem einungis höfðu náð í 253 impa.   Þriðju í mark urðu svo okkar elskaði og dáði formaður, með Tottenhamtröllið upp á arminn, með 127 impa.   Aðrir fengu slíka útreið að af alkunnri tillitssemi skrásetjara er ekki minnst frekar á þá hörmung.

Kom nú að verðlaunaafhendingu og voru veitt verðlaun í eftirtöldum flokkum, auk verðlauna fyrir 4 efstu sætin:

Nýliðaflokkur (Steinn Logi og Hjalti) og heiðurssætið (Steinn Logi og Hjalti).   Fengu auðvitað bjór fyrir hvorn flokk.

Prestaflokkur og misstu naumlega af heiðurssætinu:  Halldór og Magnus

Njáluflokkur: Runólfur á Bergþórshvoli en hann tók einmitt við búskap af Njáli og Óli Jón.  Einn björ á mann.

Rútubílstjóraflokkur: Eyþór og Bjössi. Einn bjór á mann

Spilastjóraflokkur:  Sigurður og Torfi.  Einn bjór á mann.

Góðdrengjaflokkur:  Elli og Kalli.  Einn bjór á mann.

Tottenhamsætið (minnsti minus).  Jói og Siggi.  Einn bjór á mann.

Öðlingaflokkur: Svavar og Ægir.  Einn bjór á mann.

Flokkur smáfríðra:  Sýslumannsfrúin og Sigurjón.  Einn bjór ámann.

4. sætið:  Diddi og Torfi.  Tveir bjórar á mann.

3. sætið: Bergur og Friðrik.  Þrir bjórar á mann.

2. sætið: Örn og Birgir. Fjórir bjórar á mann   ...............................................EN....................................................

.......... nú var komið að verðlaunum fyrir efsta sætið.   Stóðu þá kempurnar upp og veittu menn því strax athygli að vinstri nösin á Svavar var orðin illa bólgin og rauð af neftóbaksinntöku.   Annar eyrnasnepillinn á Jóa var orðinn hnésíður og nefbroddurinn blóðrisa.   Þá haltraði Svavar illa, nánast ógangfær vegna eymsla í hægri fæti.  Hvað veldur þessum skyndilegu veikindum þeirra er auðvitað ekki gott að segja en klúbburinn hefur sagt upp áskrift sinni að DV.   Ekki þykir ráðlegt að ungir drengir á aldur við Bólstaðabóndann og Hesta-Jóa fræðist um lífið og tilveruna af þeim skrifum og haldi að allt sé gott sem þar er skrifað. Bólstaðabóndanum er að vísu nokkur vorkunn enda var hann dyggur áskrifandi að Tímanum sáluga alla tíð og hafði á árum áður alla sínu visku úr honum, enda var allt rétt sem þar stóð.   Hér áður fyrr nýttu bændur auðvitað tímann vel, og Tímann líka.  Á endanum endaði Tíminn gjarnan á salerninu og þá á þeim endanum sem niður sneri, nema það væri mynd af Steingrími Hermannssyni, þá var hún auðvitað römmuð inn.

Skrásetjara þykir gaman að tilgreina úrslitin í BUTLERNUM en þau reiknast þannig að menn leggja af sér lakasta kvöldið, eða kvöldið sem menn ekki mættu.   Úrslitin urðu þessi:

Sigurður - Torfi                        876,8 Impar

Halldór - Kristján og Magnus H.   788,9 Impar

Svavar H. - Ægir                        65,2 Impar

Úrsltin og spilin má sjá hér og samantekinn BUTLER, m.v. öll kvöldin 5 hér

Stjórn Bridgefélags Rangæinga þakkar spilurum fyrir skemmtilegt haust og óskar bridgespilurum nær og fjær gleðlegra jóla og farsældar í leik og starfi á komandi ári!

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar