Rangæingar -- Björninn var ekki unninn

miðvikudagur, 18. nóvember 2015

Sl. þriðjudagskvöld komum við Rangæingar enn saman á heimavelli okkar að Heimalandi.    Leikin var 1. umferð í 5 kvölda BUTLER tvímenning félagsins.

Björninn hrammstóri hefur mest verið í lausaleik í haust, þar sem makker hans Eyþór hefur verið í Önnum vestur á Patreksfirði.   Björninn hefur því leikið við hina og þessa með ágætum árangri.  Á þriðjdaginn fékk hann sundmanninn ógurlega og hirðskáld okkar, Magnús Halldórsson, til fylgilags við sig.    Björninn var ekki unninn þetta kvöldið, né Magnus heldur, enda þeir félagar ekki árennilegir ásýndum hvor um sig, hvað þá saman.   Að vísu eru báðir eðlilsvarkárir og melda því sjaldnast mikið, þ.e.a.s. ekki margar sagnir.    Á kerfiskortinu þeirra eru tvær sagnir og útskýrðar þannig:

Opnari:

1 lauf:   Ég á ágæt spil

Svarhönd   :

3 NT: Ég líka og það er öruggara fyrir okkur að ég spili úr.

Þeir félagar nældu í 301,2 Impa (Imps across the filed).   Næstir inn komu Sigurður víðförli og slátrarinn með 281,7 impa og 3ju urðu svo presturinn og meðhjálparinn með 215,6 impa.   Aðrir fengu minna.

Sigurður víðförli er nýkominn frá Madeira, þar sem hann atti kappi við þarlenda og fleiri heimsborgara, við lítinn orðstý. Á meðan spilaði slátrarinn við Björninn og mælti dreyminn, þegar hann leit yfir skor gærkvöldsins:  "Mikið var ég lánsamur að fá að leika við Björn um stund".  

Annars var gaman á Madeira og mælt með þeim stað, þó garður minn hafi ekki orðið frægur þar, nema þá helst við þjóðdansaiðkun. Þó má nefna nokkuð afrek, sem kannski hefur þó verið unnið áður.   Í fyrstu umferð sveitakeppninnar settumst við Sigurjón við borð til að etja kappi við hugglega eldri frú, sem mér virtist í fyrstu að spilaði við son sinn og þótti mér sá artarlegur við móður sína að flækjast svona um heiminn til að spila við hana.   Okkur Sigurjóni gekk ágætlega á móti þeim, þó mér sýndist að þau meintu mæðgin væru ágætlega að sér í íþróttinni.   Við komum sæmilega sáttir fram með okkar blað og hittum þar fyrir ferðalúna félaga okkar, sem farið höfðu vítt um heiminn í leit að eyjunni Madeira.   Höfðu villst og lent fyrst á Kanarí, en þeim til málsmóta má þó nefna að eyjan sú er ekki all langt frá Madeira og alls ekki ólík úr lofti séð.  Margur hefur farið meiri villu vegar en það.   Jæja, við berum saman blöðin og glöggir sveitarmeðlimir þóttust fljótt greina að þetta yrði ekki gott.  Er samanburði lauk höfðum við reiknað okkur í tap 0,15-19,85.   Spilað var eftir Mondrad fyrirkomulagi og fóru nú sveitarmeðlimir, sárir og vígamóðir nokkuð, að leita eftir borðinu sínu.   Leitað var um salinn þveran og endilegan en ekki fannst borð nr. 38. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að við höfðum, af nokkru öryggi, spilað okkur inn í yfirsetu. Við skoðun á BUTLER útreikningi para kom í ljós að við Sigurjón máttum sæmilega við una, með svolítinn plus, en félagar okkar höfðu náð þeim einstæða árangri að skora 5,75 í mínus.   Kristján Björn horfði hugsi á tölurnar og sagði svo:  "Eg hef bara aldrei fengið svona mikinn minus".....og bætti svo við:  "en ég hef reyndar aldrei spilað við heimsmeistara áður".

Nk. þriðjudag heimsækjum við Rangæingar Hrunamenn, að árlegum sið.

Úrslit og spil má sjá hér

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar