Rangæingar -- 2007

laugardagur, 28. nóvember 2015

Um árabil höfum við Rangæingar att kappi við Hrunamenn einu sinni á ári.   Framan af skiptust liðin á að fagna sigri en frá árinu 2008  hafa Hrunamenn mátt lúta í gras og bikarinn átt sinn fasta samastað á Heimalandi, heimavelli okkar Rangæinga.  Það má því segja að fleira hafi hrunið árið 2008 en íslenska bankakerfið.

Sl. þriðjudagskvöld skunduðum við Rangæingar á spilavöll Hrunamanna að hótel Flúðum.  Vorum sigurvissir nokkuð og höfðum í flimtingum í rútunni á leiðinni upp eftir að óþarft væri nú að drösla bikarnum með.   En dramb er falli næst!   Að vísu stefndi í árviss úrslit í hálfleik, því Rangæingar voru 15 vinningsstigum yfir.  Brugðu heimamenn þá á það ráð að opna barinn og mátti með góðum vilja greina í seinni hálfleik hvort liðið hafði komið í rútu og hvort liðið kom á einkabílum.   Okkur Rangæingum leið vel á hótelinu og æ meiri værð færðist yfir okkur eftir því sem sló á þorstann.  Að leikslokum fór svo að Hrunamenn höfðu sigur með 107 vinningsstigum gegn 102 stigum okkar Rangæinga.  

Úrslit á einstökum borðum urðu annars þessi:

                     Hrunamenn      Rangæingar

Borð 1:               11         -         19

Borð 2:               20         -         10

Borð 3:               24         -         6

Borð 4:               11         -         19

Borð 5:               5            -         25

Borð 6:               11          -         19

Borð 7:               25           -         4

Ártölin fóru ekki fram hjá hirðskáldi okkar Rangæinga, sem mælti að leikslokum um langþráðan bikarsigur Hrunamanna:

Niðurstöðum allvel undu

og þá tekur gleðin völd.

Loksins af sér hruni hrundu,

Hrunakappar nú í kvöld.

Við Rangæingar erum auðvitað svolítið laskaðir eftir þessa Bjarmalandsför en munum æfa stíft í vetur, a.m.k. einu sinni í viku!

Við þökkum vinum okkar í uppsveitum Árnessýslu fyrir góðar móttökur og skemmtilegt spilakvöld.  Við hlökkum til að taka á móti þeim að ári!

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar