Rangæingar -- "Flaug þar Örninn fugla hæst"

miðvikudagur, 15. apríl 2015

Nú er vorið á næsta leiti og ekki síst undir Eyjafjöllum þar sem heimavöllur okkar Rangæinga er staðsettur að Heimalandi.  Okkur Rangæingum finnst afar gott að spila á okkar heimavelli, enda húsaleiga félaginu afar hagstæð, þökk sé stuðningi sveitarfélagsins Rangárþings eystra, og heima er jú alltaf best.

Reglubundnum keppnum vetrarins er nú lokið og einungis tvennt eftir ógert þessa vertíðina. 

Fyrst lokakvöldið okkar, sem haldið verður síðasta vetrardag að Heimalandi, með verðlaunaafhendingu fyrir árangur vetrarins og mjúkri spilamennsku að henni lokinni með mjúkum verðlaunum fyrir mjúka spilara, sem flestir eru að auki ávalir.  Og svo vorferð félagsins til Vestmannaeyja en þangað förum við dagana 2. og 3. maí.  

Ferðanefnd, fríð sýnum, er að störfum og hefur skipulagt glæsilega dagskrá.   Förum út með Herjólfi kl. 9,45 og forum beint í siglingum umhverfis eyjarnar.   Að hádegisverði loknum verður sest við spil fram að kvöldverði um kl. 19,00.   Að honum loknum verður farið í rútuferð um eyjuna, sem varla tekur mjög langan tíma.   Eftir það tekur við söngpartý að sið Eyjamanna.  Frjáls heimferð en við gerum ráð fyrir að flestir fari daginn eftir, þó vera kunni að einhverjir fari heim með síðustu ferð, af heilsufarsástæðum.

Fyrsta verk ferðanefndar var vitaskuld að kanna stöðu mála í Landeyjahöfn.   Fóru þangað með sökku í bandi til að mæla dýptina....en sakkan blotnaði bara ekki.   Þeir ferðanefndarmenn standa nú með skóflu á sandrifinu, sem áður hét Landeyjahöfn, og moka grimmt.   Þeir telja víst að fært verði um höfnina umrædda helgi.

En strákar og stelpurnar tvær í Rangárþingi settust að spilum síðasta þriðjudag til að ljúka vetrardagskránni með því að leika 5. og síðustu umferðina í Samverkstvímenningnum.  14 pör mættu til leiks og léku að vanda 28 spil með Monradfyrirkomulagi.

Örninn og Biggi eyjapeyji settust strax á efsta borð og héldu sig við hóflegt 70% skor lungann úr kvöldinu, þó einhverjir áskorendur slyppu ögn betur frá þeim.   Hægðu örlítið á sér í restina en enduðu engu að síður með afar glæsilegt skor, eða 66,1% skor.  Næstir inn, eftir nokkra eyðimerkurgöngu undanfarinn mánuð eða svo, urðu þeir Sigurður og Torfi með 60,4% skor en þriðju í mark urðu Björninn og Eyþór með 59,2% skor.

Og þá mælti hirðskáldið: 

Útkoman var æði glæst,

aðrir neinu tæpast flíka.

Flaug þar Örninn fugla hæst,

en flugið tók nú Birgir líka.

Úrslit og spil má sjá hér og lokastöðuna í Butlernum miðað við öll kvöldin hér

Úrsltin í Samverkstvímenningnum urðu þessi (4 bestu kvöldin af 5 töldu til úrslita)

1) Sigurður Skagfjörð - Torfi Jónsson og Svavar Hauksson      244,0

2) Bjorn Dúason - Eyþór Jónsson                                             224,4

3) Sigurður Jakob Jónsson og Sigurjón Pálsson                        219,3

Úrsltin í Meistarakeppninni urðu svo þessi (bronsstig vetrarins)

1) Sigurður Skagfjörð                  387 bronsstig

2) Torfi Jónsson                           357 bronsstig

3) Bjorn Dúason/Eyþór Jónsson   279 bronsstig hvor                     

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar