Rangæingar -- Ótrúleg úrslit

miðvikudagur, 17. desember 2014

Sl. þriðjudag komu spilarar í Rangárþingi saman á heimavelli sínum að Heimalandi undir V-Eyjafjöllum.   Svo bar til um þessar mundir að engin kona mætti til leiks og þótti mörgum það miður.   15 pör voru engu að síður mætt til að taka þátt í árlegum Landsbankabarómeter.   Verðlaun voru veitt fyrir góðan árangur og líka fyrir ekkert mjög góðan árangur og svo í alls konar flokkum, svona eftir geðþótta spilastjóra.    Leikin voru 28 spil í 7 umferðum (Monrad)

Meðal mættra voru tveir alþýðubandalagsforkólfar úr Árnessýslu, góðir gestir.   Eins og góðra gestgjafa er siður var gestunum strax vísað til sætis við háborðið, borð 1, og fengu þeir að sitja þar sem fastast fram í síðustu umferð en þá loks gripu heimamenn geirinn í hönd og færðu gestina strönd frá strönd og niður í þriðja sæti.   Efstir urðu "næstum því íslandsmeistarinn" Sigurður og maker hans  Torfi með 193 stig, eftir að hafa þrætt hinn gullna meðalveg allt kvöldið fram í síðustu umferð.   Næstir komu sælkerarnir Sigurjón og Siggi með 191,3 stig og þriðju urðu gestirnir í rúllukragapeysunum, dr. Karl og séra Símon, með 191 stig.

Úrslitin þóttu nokkrum undrum sæta, það miklum að hirðskáldi félagsins varð hreinlega orða vant og því er engin visa frá honum í þetta sinn.

Einhverjum varð þó að orði þegar úrslitin lágu fyrir:

Úrslitin þóttu mér átakanleg

í undrun á tölurnar horfi.

Í restina fundu hinn vinnandi veg

í varpanum, Siggi og Torfi.

Úrslitin og spilin má sjá hér

Stjorn Bridgefélags Rangæinga óskar þér og þínum gleðilegra og friðsælla jóla með þökk fyrir góðar stundir á liðnum arum.

Næsti viðburður er jólamót félagsins sem haldið verður í golfskálanum á Strönd sunnudaginn 28. desember nk. og hefst mótið kl. 11,00.

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar