Rangæingar -- Hreint ævintýranlegt!!

fimmtudagur, 6. mars 2014

Sveitakeppni félagsins lauk sl. þriðjudag.   Ég hef bara aldrei vitað annað eins!   Þvílík dramatík!   Svo mikil dramatík að spilastjóri er enn að jafna sig!    Fyrir lokaumferðina var Jóvar í þægilegri stöðu með 78,95 stig og átti í lokaumferðinni leik við næst neðstu sveitina.  Magríkur var svo næstur með 73,84 en Torfdís í 3ja sæti með 71,47.  Á pappírunum áttu bæði Magríkur og Torfdís fyrir höndum erfiðari leiki í lokaumferðinni og flest benti því til að úrslit væru næsta ráðin.    Alla vega virtist ljóst að Magríkur og Torfdís yrðu að vinna sína leiki stórt og vona að Eyjói myndi stríða Jóvarsmönnum nægilega mikið til að stór sigur dygði annari hvorri sveitinni til að sigra mótið.   Og kvöldið kom og sest var við borðin.   Taugar manna og kvenna voru þandar til hins ýtrasta!

Hvorki Magríksmenn né Torfdísarliðar náðu sína besta, virtust hreinlega ekki tilbúnir og báðar sveitir töpuðu sínum leikjum, Magríkur 7,24-12,76 og Torfdís 8,65-11,35.  Úrslit virtust því ráðin.  En hvað gerðu Jóvarsmenn á meðan?  Þeim dugði að fá 2,14 stig, af 20 mögulegum, og sigurinn var þeirra.   En hafi bumbuboltarnir í sveit Magríks og silkimjúkir Torfdísarliðar verið óstyrkir, hvað má þá segja um Jóvarsmenn?   

Þeir voru óvarir um sig.  Kannski búnir að taka til á verðlaunahillunni heima og verið að hugsa um hvað verðlaunagripurinn færi nú vel á henni.   Eða þeir voru að hugsa um kampavínið sem tekið skyldi upp í tilefni af sigri í sveitakeppninni!   Alla vega virtist hugurinn ekki við spilin.....þeir verptu hreinlega eggi!!  Töpuðu 0-20 fyrir hestamönnunum í sveit Eyjóa, sem vart höfðu verið með lífsmarki allt mótið, og sigu þar með niður í 3ja sæti, eftir að hafa leitt keppnina lengst af.   Sveitakeppnin endaði því þannig að Magríkur vann með 81,08 stigi.  Torfdís náði 2. sæti með 80,12 stig en Jóvarsmenn enduðu þriðju með 78,95 stig.

Fyrirliði Magríks, hún Silla okkar, leiddi því sína menn til sigurs í sveitakeppninni og eru þau vel að sigrinum komin.   Innilega til hamingju Magríkar!!

Raðað var í sveitir með það að markmiði að keppnin yrði sem jöfnust.   Ef marka má úrslitin tókst vel til, því Torfdísarliða vantaði einungis 4 impa til að enda fyrir ofan Magrík og Jóverum vantaði 10 impa.   Örugglega voru tækifæri til að sækja þá í einhverjum af þeim 196 spilum sem spiluð voru í keppninni.    Þetta fyrirkomulag hefur því reynst afar vel.

Besta butler kvöldins áttu Eyþór og Bjössi, skorðuðu 3,07 impa að meðaltali í spili, meðan þeir lömdu á Jóverjum.   Diddi og Torfi skoruðu 1,135 impa en í þriðja sæti urðu svo glænýjustu guttarnir í sveit Nýgutta, feðgarnir Steinn Logi og Hjalti, minkabændur og virkjunarsinnar, með 1,065 impa skoraða.   Frábær árangur hjá þeim feðgum!!

Butlerinn sigruðu hins vegar Sigurður og Torfi, skoruðu 0,58 impa.  Kristján og Halldór urðu í 2. sæti með 0,52 impa en þriðju þeir Eyþór og Bjössi með 0,37 impa.   Þessi þrjú pör verða verðlaunuð sérstaklega með votum verðlaunum á lokakvöldinu í vor.

Úrslitin í sveitakeppninni má sjá hér   Butler fyrri hálfleiks hér og þess seinni hér   Lokastaðan í Butlernum er svo hér

Næsta þriðjudag hefst 5 kvölda tvímenningur, Samverkstvímenningurinn.    Fyrsta kvöldið verða veitt sérstök verðlaun fyrir árangur þess kvölds og að vanda dreift um stigatöfluna eftir geðþótta spilastjóra en þó mest á toppinn, líkt og góð venja er.

Að aflokinni skemmtilegri sveitakeppni er staðan í Meistarakeppninni sú að Magnús Halldórsson, sundlaugarvörður með meiru, er á toppnum með 218 bronsstig.  Næstu menn eru með 208 stig, svo keppnin er æsispennandi.   Eins og menn vita er Magnús afburða snjall hagyrðingur og hefur marga hildina háð á þeim vettvangi.  M.a. hefur hann átt orðaskipti í bundnu máli við Jón nokkurn Hermannsson og hafa þeir félagar farið mikinn á síðum Bændablaðsins.    Pétur nokkur Pétursson gekk nýverið til liðs við Jón í átökunum við Magnús og sendi Magnúsi þessa kveðju í Bændablaðinu þann 20. febrúar sl.:

"Síst skal kljást við sæmdarmann

er sætra grauta neytir

því meyjaástir margra vann

Magnús skautableytir"!!!!

Og túlki það hver með sínum hætti, því eins og Kristján Hreinsson orti einhvern tíma:

".....Ljóðatúlkun lýsir best

löngun þess sem hlustar" (hér les)

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar