Rangæingar -- Er blái liturinn lausnin????
Þann 2. apríl sl. var 3ja umferð í Aðaltvímenning félagsins (Samverkstvímenningnum) leikin. 12 pör mættu til leiks. Siggi Skógabóndi virðist kunna vel við bláa litinn svona næst sér, a.m.k. þegar hann er í grennd við óæðri endann, því þeir Jói hafa hreinlega farið hamförum eftir að Siggi fór að sitja á bláa púðanum. Þeir félagar unnu enda nokkuð örugglega með 61,8% skori en næstir urðu Torfi og Diddi með 58,9% skor. Bankastjórinn og slátrarinn urðu sem fyrr að láta sér lynda 3ja sætið, með 53,6% skor og hefur heldur farið aftur en hitt.
Úrslitin og spilin má sjá hér.
Stöðuna í Samverkstvímenningnum, eftir 3 umferðir af 5, má sjá hér en þar leiða hetjur hafsins, Torfi og Diddi, keppnina.
Og Meistarakeppnin, ja hérna hér! Bréfritari man ekki svona spennu í keppninni og einungis 2 kvöld eftir af vetrinum. Að vísu er bréfritari með yngri mönnum í félaginu, til þess að gera nýlega fermdur, svo vera kann að eldri menn muni viðlíka spennu. En bankastjórarnir (Lands- og Kjötbanka-) hafa loks náð að staulast á toppinn með 232 stig en einungis 4 stigum á undan pólitíkusunum, Halldóri og Kristjáni, sem hafa önglað saman sínum 228 bronsstigunum hvor. Billi Gestur er svo sjónarmun á eftir þeim með 227 stig. Þá kemur Bjössi Dúa með 226 stig. Í humátt á eftir þessum höfðingjum öllum kemur svo Eyþór Allsherjargoði með 216 stig. Þar sem Siggi hefur nú keypt bláan púða fyrir Jóa líka getur verið að þeim dugi þessi tvö kvöld sem eftir eru til að blanda sér í leikinn því Siggi er nú með 202 stig. Allt getur því enn gerst!
Félagið mun svo ljúka vetrinum með glæsilegu lokakvöldi á Hótel Flúðum síðasta vetrardag.