Rangæingar -- Pattaralegur peyji og Eyji...alla vega eftir páska
Þann 26. mars sl. var spilaður páskabarómeter hjá Rangæingum (Krappabarómeterinn) en Krappi ehf. gefur páskaeggin sem veitt voru verðugum í verðlaun. 15 pör mættu til leiks. Eyji peyji er náttúrulega engum líkur, alla vega ekkert líkur Bjössa Dúa í útliti, en með karlinn í feiknaformi tóku þeir félagarnir Jóa vert og Sigga Skógabónda í kennslustund í lokaumferðinni og lönduðu þar með sætum sigri. Þeir munu eflaust belgja sig út af verðlaunafénu þessa páskana og mæta bústnir og pattaralegir til leiks á ný nk. þriðjudag. Að vísu er Siggi Skógabóndi slæmur í mjöðm um þessar mundir, eftir aðgerð, og situr því á bláum kodda við spilverkið. Vel kann að vera að það hafi háð þeim félögum nokkuð, enda á blátt heldur undir högg að sækja þessa dagana. EyjaBjössarnir luku leik með 64,0% skor en Jói og Siggi með 63,4% skori. Bankastjórinn og slátrarinn urðu að láta sér lynda 3ja sætið, með 54,2% skor, og áttu sannast sagna ekki meira skilið það kvöldið.
Úrslitin og spilin má sjá hér.
En Meistarakeppnin maður minn! Elstu menn, sem enn muna yfirleitt nokkuð, muna ekki aðra eins spennu og nú er í henni. Prestakallarnir og ráðherraefnin, Halldór og Kristján, eru á toppnum með 228 bronsstig hvor. Billi Gestur er sjónarmun á eftir þeim með 227 stig. Þá kemur Bjössi Dúa með 226 stig og þar á eftir ráfa þeir Sigurður og Torfi um með 221 stig hvor. Í humátt á eftir þessum höfðingjum öllum kemur svo Eyji með 216 stig. Allt getur því gerst og, eins og skáldið sagði, ".... og eflaust gerist það víst!"
Bridgefélag Rangæinga óskar félagsmönnum sínum og landsmönnum öllum gleðilegrar páskahátíðar!