Jafet S. Ólafsson látinn 72 ára að aldri.
Jafet fæddist í Reykjavík 29. apríl 1951. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Jafetsdóttir, húsfreyja og þjónustukona, og Ólafur M. Magnússon húsgagnasmíðameistari.
Jafet lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1973 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1977. Þá var hann löggiltur verðbréfamiðlari.
Jafet starfaði í iðnaðarráðuneytinu frá 1975 til 1984, hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga frá 1984 til 1986 og hjá Þróunarfélagi Íslands frá 1986 til 1988. Hann var útibússtjóri Iðnaðarbankans og síðar Íslandsbanka í Lækjargötu í Reykjavík frá 1988 til 1994 þegar hann var ráðinn útvarpsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins en því starfi gegndi hann til ársins 1996. Hann stofnaði Verðbréfastofuna ásamt fleirum árið 1997 og var þar framkvæmdastjóri til 2006 þegar hann seldi sinn hlut. Eftir það stýrði hann eigin fjárfestingarfélagi, Veig.
Jafet var meðal annars stjórnarformaður Aðalskoðunar í níu ár og sat í stjórn Steinullarverksmiðjunnar og Þörungavinnslunnar. Hann sat einnig í stjórnum Hótels Bæjar, Verðbréfaþings Íslands og Samtaka banka og fjármálafyrirtækja. Þá var hann konsúll fyrir Rúmeníu frá 2007 til 2023 og var á síðasta ári sæmdur rúmenskri orðu fyrir störf sín. Hann sat í ýmsum stjórnum fyrir Val og stangveiðimenn og var formaður Badmintonsambandsins frá 1990 til 1994. Þá var hann forseti Bridgesambands Íslands frá 2009 til 2022 og sat um tíma í stjórn Bridgesambands Evrópu.
Jafet var lengi fylgdarmaður erlendra veiðimanna í laxveiði í Laxá í Aðaldal.
Eftirlifandi eiginkona Jafets er Hildur Hermóðsdóttir, kennari, bókmenntafræðingur og fv. útgefandi. Börn Jafets og Hildar eru Jóhanna Sigurborg, Ari Hermóður og Sigríður Þóra.
mbl