Jón Baldursson ráðinn yfirmaður landsliðsmála í opna flokknum

fimmtudagur, 11. ágúst 2022

Jón Baldursson hefur verið ráðinn til að stýra landsliði Íslands í opna flokknum í bridge. Sett hefur verið upp 4 ára áætlun þar sem markmiðið er að Ísland verði meðal fremstu þjóða í bridge á sama tíma og byggt verður til framtíðar.

Jón Baldursson þarf vart að kynna fyrir íslensku bridgeáhugafólki, enda fremmsti bridgespilari Íslands fyrr og síðar. Hann hefur oftast allra orðið Íslandsmeistari í sveitakeppni í bridge eða 15 sinnum og Íslandsmeistari í tvímenningskeppni 6 sinnum. Hann varð Norðurlandameistari 1988, 1994, 2013, 2015 og 2019.

Jón á að baki um 600 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann vann Generali master, óopinbera heimsmeistarakeppni í einmenningi árið 1994, vann Transnational sveitakeppni, heimsmeistarakeppni í blönduðum flokki árið 1996 og hefur tvisvar orðið Norður-Ameríkumeistari. Hann varð heimsmeistari í bridge er íslenska sveitin vann Bermuda Bowl, eða heimsmeistaratitilinn í bridge árið 1991 í Yokohama. Jón Baldursson er í “Hall of Fame” Evrópska Bridgesambandsins.


Ljóst er að það að Jón sé tilbúinn að taka að sér þetta verkefni er algjör hvalreki fyrir bridge á Íslandi. Jón hefur tilkynnt að hann muni velja sinn fyrsta landsliðshóp strax í næstu viku.


Tilkynnt verður um yfirmann landsliðsmála í kvennaflokki í næstu viku.

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar