Leikir dagsins 22.júní á EM - pistill frá EM

þriðjudagur, 21. júní 2016

EM-pistill Dagur 7
Ísland byrjaði á yfirsetu og segja má að það hafi verið langbesti leikur liðsins í dag enda algerlega feilfrír. Tólf stig fengu menn fyrir að taka því rólega á þessum funheita morgni í Búdapest en í dag fór hitinn upp í 35 stig og það var nánast óbærilegt úti nema í góðum skugga. Þessi tólfkall þýddi að liðið var í 15. sæti.

Ísland - Belgía
Það voru Maggi og Láki sem fengu að hvíla þennan leik gegn Belgum og segja má að leikurinn lofaði góðu lengi framan af. Þegar þrjú spil voru eftir áttum við 10 stig en þessi síðustu reyndist okkur dýr og það var einkum við legulukkuna að sakast. Svenni og Þröstur fóru í 7 spaða sem eru samkvæmt reikningsfróðum eitthvað um 70% slemma en auðvitað lá það ekki svoleiðis. Að auki fóru fóru andstæðingar þeirra í næfurþunnt geim sem stóð. Þetta þýddi 13 impa tap eða 13.52 stig gegn 6.48 stigum og óbreytt staða.

Ísland - Eistland
Svenni og Þröstur hvíldu þennan leik sem bauð reyndar ekki upp á mikið og útgjöfin nánast bara í eins stafstölu í flestum spilum. Eftir nokkurn barning og baks var ísland að sætta sig við fjögurra impa tap 13-17 sem þýddi 8.80 stig gegn 11.20.

Ísland - Kýpur .
Alli og Birkir hvíldu seinastaleikinn og gátu farið upp á hótel og fylgst með Ísland - Austurríki í tölvunni ásamt bridsinum. Fyrirfram var búist við nokkuð öruggum sigri gegn Kýpur og okkar menn byrjuðu fantavel og skoruðu 27-0 í fyrstu þremur spilunum en eftir það komu nokkur slök spil og Kýpur jafnaði leikinn. Aftur náði Ísland frumkvæði og leiddi með 26 impum þegar þrjú spil voru eftir. Þau voru aftur á móti ekki góð, misstum m.a. geim og fórum í geim sem stóð ekki. Þetta þýddi einungis átta impa sigur og 12.29 stig gegn 7.71. Við þetta seig liðið niður í 16. sætið og er nú einu sæti á eftir Finnum.

Fyrir utan frábæran sigur Íslendinga á Austurríki í fótboltanum var þetta því ekki sá sigursæli dagur sem stefnt hafði verið að og markmið liðsins færðist alls ekki nær. En á morgun er nýr dagur og meðan enn er líf , þá er von.

En til hamingju allir Íslendingar með að eiga lið í 16. liða úrslitum EM í fótbolta.

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar