Úrslit Íslandsmótsins - keppnisstaður

þriðjudagur, 27. mars 2012

Töluverð umræða hefur verið meðal bridgespilara um þá ákvörðun að úrslitamótið í sveitakeppni skuli fara fram í húsnæði Bridgesambandsins í Síðumúla. Finnst mörgum að húsnæðið hæfi ekki úrslitakeppninni og lítil aðstaða sé fyrir áhorfendur. Þetta er ekki ný umræða og kom m.a. upp í fyrra. Því var þá heitið að betri keppnisstaður yrði fundinn á næsta ári, sem nú er runnið upp. Forseti og framkvæmdastjóri Bridgesambandsins hafa leitað ýmissa leiða til að finna góðan stað fyrir mótið en allar líkur eru á því að við verðum að halda það í Síðmúlanum. Meginástæða er sú háa húsaleiga sem farið er fram á fyrir þessa fjóra daga sem úrslitakeppnin stendur yfir. Hótel Natura (Loftleiðir) fara fram á 551.000 króna leigu. Reykjavík Bridge Festival var haldið þar í janúar og undankeppnin fór þar einnig fram, var þá svipuð leiga greidd í hvort sinn. Í úrslitunum er spilað samtals á 12 borðum, þannig að þetta rúmast vel í Síðumúlanum. Húsnæðið verður lagfært, m.a. með tilliti til hljóðs, samtals er sá kostnaður um 700.000 kr og viljum við einfaldlega frekar verja þeim peningum í nauðsynlegar breytingar, heldur en í  háa húsaleigu annars staðar.
Enn er verið að leita að öðru húsnæði og er þeim möguleika haldið opnum að færa mótið, kannað hefur verið húsnæði í skólum, hjá íþróttafélögum, húsnæði Sautján á Laugaveginum og víðar. Við treystum okkur ekki til að hækka keppnisgjöld frekar, framlög hins opinbera hafa dregist verulega saman, framundan eru dýrar keppnir í Evrópumótinu og Ólympíumótinu. Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti, því er þetta niðurstaðan nema aðrir möguleikar opnist.

Jafet S. Ólafsson, forseti

Reykjavík Bridge Festival

Frítt fyrir börn og ungmenni Öll börn og ungmenni 20 ára og yngri fá frítt í bridge í vetur
Sjá nánar