Rangæingar -- Rétt misst af ríkinu
Sl. þriðjudag mæltum við Rangæingar okkur mót á Heimalandi til að spila ölbarómeter, þar sem allir fá eitthvað öl í sinn hlut. Eitthvað virðist þó boðun hafa farist fyrir, því einungis 9 pör mættu til leiks. Að vísu erum við Rangæingar auðvitað þjóðþekktir bindindismenn og því kann vel að vera að veiting öls í verðlaun hafi fælt einhverja frá.
Ekki samt Billa Fljótvíking. "Ég ætlaði ekkert að koma en rétt missti af ríkinu í dag og bráðvantaði öl. Vissi að ég fengi nóg af því, ef ég bara mætti". Þeir Björninn urðu enda efstir með 69,4% skor, staðráðnir að ná í ölpottinn.
Næstbestir voru svo Sigurður og Þórður með 57,6% skor, sem er bara gott hjá ekki eldri mönnum. Þriðju urðu Óli Jón og Runófur með 54,2% skor en svo skemmtilega vill til að Runólfur tók einmitt við búskap á Bergþórshvoli af Njáli heitnum, við sviplegt fráfall hans í brennunni þarna um árið. "Okkur hentar bara svo mikið betur tvímenningur en sveitakeppni" sagði Runólfur og klappaði Óla sínum á kollinn.
Næst byrjum við Samverkstvímenninginn, sem tekur ein 5 kvöld.
Úrslit og spil má sjá hér