Rangæingar - Léttsaltaðir
Að venju hófum við Rangæingar nýtt almanksár með því að leika TOPP16 einmenninginn. Þar kom því saman rjómi Rangæskra spilara. Þarna eru vissulega vænir sauðir innan um og þegar litið er yfir hópinn gæti einhver í ógáti ályktað sem svo að þessi hópur hafi fremur drukkið mikinn rjóma í gegnum tíðina en vera rjómi andlegs atgervis í Rangárþingi.
Við fögnuðum góðum gesti og gömlum félaga, slátraranum Þorgils Torfa, sem braust í gegnum byl og bálviðri austan af Héraði til að vera með okkur þetta kvöld. Það var líka vel við hæfi, þar sem Torfi blés lífi í þessa einmenningskeppni upp úr síðustu aldamótum. Þá gaf hann farandbikarinn sem keppt er um og nafn sigurvegara er letrað á. Bikarinn góði varðveitir því söguna. Þá um stundir gekk Torfi enn um með kindabyssuna öðru megin í beltinu og sveðjuna hinumegin. Hann kom því færandi hendi ár hvert og allir spilarar fengu saltkjötssoðningu með sér heim.
Eins var það í gær, nema hvað Fiskás á Hellu lagði til kjötið. Um leið og framlagið er þakkað er auðvitað sjálfsagt að rifja upp kjörorð fyrirtækisins: "Ferskir í fiskinum. Fríðasti fisksalinn".
"Held mér sé hreinlega óhætt að fara heim núna. Þarf líka að vakna snemma" sagði Eyþór Suðurlandsmeistari þegar tvær umferðir voru eftir. Þá sat meistarinn á toppi stigalistans með yfir 71% skor. Hann fór þó hvergi, enda bíllaus og seinlegt að labba á Selfoss frá Heimalandi.
Hugurinn ber þig hálfa leið, segir máltækið og það átti vel um síðustu tvær seturnar hjá Eyþóri, þar sem hann fékk einungis 2 stig á 12 mögulegum. Hugurinn var greinilega farinn áleiðis heim, þó holdið færi hvergi. Mögulega var Eyþór farinn að hugsa um hve fagurlega einmenningsbikarinn færi í stofunni, svona við hliðina á Suðurlandsbikarnum. Einnig kann að vera að hann hafi verið farinn að hugsa gott til glóðarinnar að stinga saltkjötinu í pottinn kvöldið eftir, enda annálaður matgæðingur.
En það breytti engu, forskotið var nóg, hann endaði með 62,8% skor og bætir nafni sínu þar með á farandbikarinn. Vor ástsæli formaður kom næstur með 57,2% skor. Spilastjórinn tindilfætti varð svo þriðji með 55,6% skor. Hirðskáldið nældi svo í fjórða og síðasta silfurstigasætið með 54,4% skor.
Hirðskáldið fylgdist fullur aðdáunar með yfirburðaskori Eyþórs lungað úr kvöldinu en veitti líka athygli óförum hans í lokasetunum. Um leið og hann tók við silfurstigunum fjórum og saltketinu, mælti skáldið stundarhátt:
Um Eyþór verður sagt með sann
að salta menn í spilum kann
Lengst af sagnir fínar fann
fipað enginn gat því hann
Í blálokin á rassinn rann
en raunar þó með stæl hér vann
Úrslit og spil má sjá hér