Rangæingar - Þrotlausar æfingar
Eins og fleiri Íslendinga bar veðurútlit okkur Rangæinga ofurliði þriðjudaginn fyrir viku. Því gátum við ekki lokið við síðustu umferð í Butlernum, þrátt fyrir einlæg áform um það. Spáin var m.a.s. það slæm að áeggjunarorð hirðskáldsins, nokkurra ára gömul ort af svipuðu tilefni, dugðu ekki til að heyfa okkur. Þá fannst skáldinu ekki mikið koma til Rangæinga nútímans, samanborið við Rangæinga fyrri ára, að fresta spilamennsku þó gerði kaldaskít. Hann orti þá:
Hér áður voru hetjur slyngar
Heljarmenni á landi og sæ
En veðurhræddir vesalingar
vepjast nú á hverjum bæ!
En hvað um það. Við þorðum vel á Heimaland í gær og slógum saman jólabarómeter með ölverðlaunum og síðasta kvöldinu í Butler.
Til leiks mættu 10 pör og léku 28 spila Monrad.
"Að baki liggur þrotlaus æfing" sagði stórvesírinn í Varmahlíð, kátur með úrslit kvöldsins. "Svo var ég í Vegas um daginn. Það hjálpaði líka". Þeir Varmahlíðarmenn nældu í 36 impa.
Góðbóndinn á Kanastöðum mætti klerkunum í síðustu setu. Klerkarnir komumst í fyrra fallinu í hátíðaskap og úthlutuðu bóndanum 22 impum í setunni úr sínum sjóðum. "Settum stefnuna strikbeint á pottinn" sagði meðhjálparinn "en hittum bara ekki alveg". Eins og menn vita hljóta menn ölpottinn sem hitta á slétt 50% skor í tvímenningi eða slétt 0 í Butler. Klerkarnir enduðu í -1. "Æ æ æ, og þú misstir af yfirslagnum" stundi klerkurinn. En huggun var harmi gegn að klerkarnir hrepptu Tottenhamsætið, þ.e. enduðu efstir í annari deild. Fyrir það fæst tvöfaldur ölskammtur.
En jólagjöfin kom bændunum upp í 2.- 3. sætið, enduðu með 30 impa, jafnir formanninum ástsæla, sem mætti til spilamennsku, svona til hátíðabrigða.
Árangur annarra er ekki í frásögur færandi og verður ekki tíundaður hér, enda skrásetjari nærgætinn, hjartahlýr og hrekklaus maður. Þess vegna verður alls ekki minnst á sigurvegara í flokki "vonbrigða kvöldsins". Suðurlandsmeistarinn og Skógabóndinn gerðu harða atlögu að verðlaunum í þessum flokki, enduðu með -12 impa í fjórða neðsta sæti. Þeir höfðu þó ekki roð í sigurvegarana í þessum eftirstótta flokki. Trillukarlarnir komu nefnilega inn næst neðstir, með -32 impa. "Ekkert að marka þetta sagði Gísli. Haustvertíðinni er löngu lokið, búið að binda dallinn, allir vermenn farnir úr verinu og komnir í jólafrí. Vetrarvertíðin hefur alltaf verið minn tími. Stærri fiskur, betra verð og fleiri impar."
Úrsltin í 5 kvölda Butlernum urðu annars þessi, þegar 4 bestu kvöldin eru talin:
1) Sigurður - Gísli - Kalli H, 151 impi
2) Elli - Kalli, 105 impar
3) Siggi Sigurjóns - Jói, 91,9 impar.
Bridgefélag Rangæinga óskar þér og þínum gleðilegra jóla!
Úrslit og spil frá í gær má sjá hér
Samanlagðan Butler fyrir öll kvöldin 5 má sjá hér