Rangæingar -- Reykspólandi
Sl. þriðjudag mættu 12 pör til leiks og léku 2. umferð af 5 í Samverkstvímenningnum.
Eldsprækir og algjörlega úthvíldir eftir endurnærandi Færeyjaferð urðu Færeyjafararnir í 1. og 2. sæti. Eftirlaunaslátrarinn og áhugaskipstjórinn náðu í 59,7% skor og sjónarmun á eftir komu Sýslumannsfrúin og snúningapilturinn með 58,8% skor. Þriðju inn komu svo aflaskipstjórinn og trillukarlinn þrautreyndi með 58,5% skor, enda fóru þeir ekki neitt.
Það verður vitaskuld að teljast eðlilegt að sigldir menn komi sterkir til leiks eftir utanför, hvar menn afla sér viðbótarreynslu og þekkingar. Þó var spilamennskan ytra ekki endilega á vetur setjandi, enda höfðu landsliðsmennirnir Rangæsku dreypt svolítið á appelsíni á langri leið sinni á spilaspað.
"Held að reykurinn sé bara uppbyggjandi" sagði Sýslumannsfrúin og hóstaði hressilega. "Gerir manni ekkert nema gott". Slátrarinn, sýslumannsfrúin og snúningapilturinn eru allir með afkastameiri reykingamönnum hérlendis og hafa allir unnið til verðlauna í þeirri grein. Skipstjórinn er ekki eins liðtækur hvað það varðar en bætir það upp með þjóðlegri neftóbaksiðkun, sem bætir, hressir og kætir.
Við hefðbundna reykjarinnöndun bættist svo hressilega við í háls og lungu öllu verri reykur, þegar rútan sem ferjaði okkur í Gásadal á sunnudeginum brann undan afturendanum á okkur. Upptök eldsins voru í vélarrýminu aftast og við sem sátum aftarlega í rútunni höfðum andað nokkru af þessum unaði að okkur, áður en okkur fór að volgna verulega á afturendanum og áttum fótum fjör að launa. "Heyrðu, ég varð fyrir tjóni" mælti slátarinn og horfði hugsandi í eldinn. "Það brunnu inni 4 bjórar og koníakspeli".
Ferðin var annars frábær og óhætt að mæla með slíkri ferð fyrir alla bridgespilara. Gestrisni Færeyinga er einstök og veskið fór að heita má ekki á loft, nema rétt til að bæta við stöku appelsínglasi. Við hér á Íslandi hljótum að geta tekið þessa höfðingja okkur til fyrirmyndar og reynt að nálgast eitthvað þessa gestrisni, því hana er dásamlegt að upplifa.
Mætti þó sleppa varðeldinum.
Úrslit kvöldins og spil má sjá hér
Stöðuna eftir 2 kvöld hér