Rangæingar -- Óveðurstvímenningur
Sl. þriðjudagskvöld var fyrsta frétt á RUV bein útsending frá Hvolsvelli, vegna óveðurs á svæðinu. Aftan við fréttamanninn og blikkandi ljós björgunarsveitarmanna tóku glöggir áhorfendur eftir bíl feðganna frá Neðra-Dal sem læddist fram hjá vegatálmum, í gegnum brimskafla og boðaföll, til spilamennsku á Hvolsvelli, enda flokkast það undir brýn erindi að spila bridge. Þetta vita menn.
Ekki eru allt jafn miklir jaxlar og þeir minkabændur, svo af alkunnri tillitssemi, nærgætni og alúð spilastjóra var 4. umferð sveitakeppninnar frestað um viku en í staðinn leikinn eins kvölds óveðursvímenningur með þátttöku 8 para.
Formaðurinn var ánægður með mætinguna og hörku sinna manna. Hélt upp á kvöldið með því að vinna næsta örugglega með 68,5% skor. "Þetta skor dugar mér vel fyrir næstu kvöld" sagði formaðurinn glaðbeittur, kvaddi sauðahópinn með handabandi og hélt til Tenerife í morgun. Eftir sitjum við sauðirnir, sem fé án hirðis og má jafnvel sjá tár á einstaka hvarmi, alla vega makkers.
Næstir inn urðu fisksalinn flugbeitti og glerlistamaðurinn með 63,1% skor. Þriðju komu svo slátrarinn og útgerðarmaðurinn, nýkomnir af bridgehátið með héraðsmet í báðum greinum upp á vasann. Héraðsmetið dugði skammt og fengu við drengirnir úthlutað 52,4% skori.
Úrslit og spil má sjá hér