Rangæingar - TOPP16
Að vanda hófum við Rangæingar nýtt ár með því að leika TOPP16 einmenninginn, hvar sæti eiga 16 stigahæstu spilarar síðasta vetrar. Til leiks mætti því rjóminn af Rangæskum spilurum.
Menn skiptast í tvö hópa með álit sitt á einmenning. Ef menn enda ofar en makker, telja þeir einmenning gefa góða mynd af styrkleika spilara og sýna glögglega hvar veikleikinn liggur í parinu. Ef menn á hinn bóginn enda neðar en makker, telja þeir einmenninginn í besta falli sæmilega skemmtun en árangur í honum byggjast mest á heppni og slembilukku.
"Ég get ekki sagt að þessi úrslit hafi komið mér á óvart" sagði Skógabóndinn og strauk mesta tóbakið af farandbikarnum sem skrásetjari afhenti honum að leikslokum. "Var auðvitað laus við makker og hálffeginn að hann átti ekki heimangengt. Hefði þá sjálfsagt fengið eina slæma setu og sigurinn orðið tæpari hjá mér".
"Saknaði þess þó að hafa ekki heimsmeistara með í kvöld. Þeir höfðu báðir gott af því að spila við mig, fannst þeir bara móttækilegir drengirnir" en sl. tvö ár höfum við Rangæingar fengið góða gesti til að vera 16. maður í mótinu. Jón Baldursson í fyrra og Aðalstein Jörgensen árið áður.
Skógabóndinn landaði líka léttum og skínandi góðum sigri, 66,1% skori sem verður að teljast afar vel af sér vikið í einmenning. "Gefur rétta mynd" bætti bóndinn við þegar hann stillti sér upp til myndatöku. Næstur í mark, mikið neðar, kom sköllótti skipstjórinn með 57,2% skor og enn neðar vinnumaðurinn á Bergþórshvoli, með 53,9% skor.
Annars er gaman að segja frá því að farandbikar er veittur fyrir einmenninginn, sem gefinn var af Sláturhúsi Hellu hf. árið 2008. Síðan þá hafa einungis tveir unnið bikarinn tvisvar, slátrarinn sjálfur og svo Bjorn litli Dúason. Þessi mikla dreifing styður kannski við það álit að heppni og slembilukka spili talsvert inn í úrslit einmennings.
Úrslit og spil má sjá hér