Rangæingar -- Miðflokksmaður á ferð og flugi
Sl. þriðjudag lékum við Rangæingar okkur í jólabarómeter með þátttöku 12 para. Veitt voru verðlaun fyrir alla flokka en ögn meira fyrir efstu sætin í allar áttir á stigatöflunni, svona í anda afreksíþróttastefnu
Hlutskarpastir urðu hinir fíngerðu og fisléttu Selfyssingar, Garðar og Sigfinnur. Þeir náðu í 57,5% skor. Næstir í mark voru Rangæingarnir Billi og Helgi með 57,1% skor og þriðju spútnikpeyjarnir Kalli og Elli með 56,8% skor.
Gaman frá því að segja að Helgi, sem er bóndasonur frá Kotvöllum hér í Rangárþingi var lengst af þekktur harðlínukommi og svaf lengst af með myndir af Lenín og Stalín yfir höfðagaflinum. Eitthvað hefur hann þó færst inn á miðjuna í seinni tíð, því í aðdraganda kosninga haustið 2017 keypti Helgi sér einkanúmer á bílinn sinn. Fékk svo grunlausan skrásetjarann í lið með sér og keyrði með hann um landið þvert og endilangt á bílnum góða, sem eðli málsins samkvæmt er í áberandi lit. Fórum m.a. á Siglufjörð og gistum í góðu yfirlæti á þekktu Framsóknarheimili í Fljótunum. Bíllinn góði, svo fagurlega merktur, fékk þó ekki að standa á bæjarhlaðinu. Við urðum að skilja hann eftir utan landareignar og ganga síðasta spölinn.
Miðflokkurinn fékk svo ágæta kosningu eftir þessa för okkar. Og hvert var svo einkanúmerið sem Helgi keypti dýrum dómum? Jú, XM - X17 og mynd af Sigmundi leysti þá byltingarbræður, Stalín og Lenín, af hómi við höfðagaflinn.
Úrslit og skor í hverju spili má sjá hér en því miður var spilaskráin úr einhverju allt öðru móti og gagnast því fróðleiksfúsum lítt.
Við Rangæingar óskum landsmönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar í leik og starfi á nýju ári.
Jólamót okkar verður haldið laugardaginn 29. desember í Hvolnum á Hvolsvelli og hefst kl. 11,00. Spiluð verða 44 spil.