Rangæingar -- Heima er best
Sl. þriðjudag lukum við Rangæingar við 5 kvölda Butler. 10 pör mættu til leiks á Heimalandi, heimavelli okkar, en kvöldið á undan hröktumst við undan stormi, strórhríð og tónleikum niður í Gunnarshólma, félagsheimili Austur-Landeyinga. "Hingað hef ég nú sjaldan komið allsgáður en þó getur verið að það hafi gerst einu sinni, snemma vors árið 1982. Man það því sauðburður var í fullum gangi" sagði Bólstaðarbóndinn fyrrverandi.
Skipstjórinn og slátrarinn öxluðu skinn sín og örkuðu til Reykjavíkur um liðna helgi til að spila í tveimur mótum. Það var ekki frægðarför en þó er jákvætt hvað við erum afskaplega góðir við gamla fólkið, enda var okkur báðum innrætt það í æsku. Seinna mótið var Íslandsmót eldri spilara og ljóst að við glöddum margt gamalmennið með veru okkar á mótinu. Flestir fóru frá borðinu okkar með bros á vör. Aldraðir eiga í framtíðinni áhyggjulaust ævikvöld, ef þeir fá bara að spila svolítið við okkur Torfa.
Annars eru útileikir eru alltaf erfiðir, það vita menn, og eftir strembna útileiki þarna um helgina komu ferðalangarnir sterkir heim. Urðu efstir með 36 impa. Tottenhamtröllið og okkar ástsæli formaður héldu upp á góðan árangur sinna manna í meistaradeildinni þetta kvöld með því að verða í sama sæti og liðið þeirra í riðlinum, 2. sæti. Tottenhamtröllið fylgir sínum mönnum af festu og vill haga spilmennsku sinni þannig að hann endi í sama sæti og Tottenhamliðið er á hverjum tíma í deildinni. Því endar hann oft neðarlega. Þeir félagar lönduðu 26 impum þetta kvöld. Þriðju urðu svo Dúason og Gísli aflaskipstjóri sem skiluðu hróðugir inn 24ra impa skorblaði.
Skemmtilegast var þó að nýliðarnir okkar til 15 ára, náðu 4. sætinu. Minkabændurnir fengu 9 impa í sinn hlut og fengu þar með sín fyrstu stig á tímabilinu. Samsíða þeim en með tapaða innbyrðis viðureign urðu svo Árnesingarnir eitilhörðu Garðar og Billi.
Til úrslita í 5 kvölda keppninni töldu 4 bestu kvöldin af 5. Úrsltin urðu sem hér segir:
1) Sigurður-Torfi, 222 impar skoraðir . (Reiknað út af Sigurði. Reiknast betur þegar ég geri það sjálfur)
2) Bjorn-Eyþór/Gísli, 109 impar skoraðir
3) Elli-Kalli, 97 impar skoraðir.
Líkt og úrslitin vitna um erum við slátrarinn sammála um að heima er jafnan best.
Næstkomandi þriðjudag spilum við Rangæingar jólabarómeter með ölverðlaunum fyrir öll sæti í anda jafnaðarmennsku. Undir áhrifum nýfrjálshyggjunnar verða þó ögn betri verðlaun veitt fyrir efstu sætin.
Jólamót okkar Rangæinga verður svo haldið á Hvolsvelli laugardaginn 29. desember.
Úrslit og spil má sjá hér, hluta spilagjafarinnar hér og samantekinn Butler fyrir öll kvöldin hér