Rangæingar -- Búrið autt, búið snautt
Sl. þriðjudag hófum við Rangæingar leik í 5 kvölda Butler. 12 pör mættu til leiks, þ.á.m. góðir gestir.
Gestrisni okkar Rangæinga er annáluð og hér í sveit hefur ávallt verið til siðs að draga fram það besta sem til er í búrinu hverju sinni, þegar gesti ber að garði. Við brugðum ekki út af þeirri gullnu reglu á þriðjudaginn, þegar Gestsson og Garðar ösluðu á Rússajeppanum austur yfir stórfljótin, til fundar við okkur. Þeir fengu allt það besta úr stigabúrinu og fóru vel mettir heim með 59 IMPa. Þar sem farið var að ganga nokkuð á stigakostinn í búrinu og búið orðið næsta snautt eftir gestina, var minna til skiptanna fyrir heimafólk. Næsta sæti deildu flokksbróðurlega slátrarinn og kvótaprinsinn með þeim bændum Ella og Kalla. Hvort par fékk 30 IMPa í sinn hlut, og ögn af selspiki með.
"Þetta skor hefði nú þótt gott í Fljótavíkinni hér forðum" sagði Billi Fljótvíkingur "en ég veit nú ekki um þína sveit Garðar".
Eins og menn, og jafnvel einstaka kona, vita er Billi ættaður úr Fljótavík sunnan við Kögur á Hornströndum. Þaðan koma bara hreinræktaðir jaxlar, rúnum ristir af harðri baráttu við björgin. Garðar er hins vegar ættaður frá Snarrótarhóli í Fúamýri, sem er ekki eins þekkt sveit, þó margt ágætis fólk sé auðvitað þaðan líka.
Úrslit og spil má sjá hér