Rangæingar -- Úrslitin ráðin
Nú höfum við Rangæingar lokið formlegri vetrardagskrá okkar. Henni lauk sl. þriðjudag þegar við lukum við 5 kvölda Samverkstvímenning. Þá eigum við einungis lokakvöldið eftir, sem við höldum nk. miðvikudag, síðasta vetrardag á Heimalandi. Byrjum þar á því að veita verðlaun, eldsnöggt, og spilum svo 28 spila Barómeter á eftir, með verðlaunum fyrir alla flokka, eins og svo oft áður.
Úrslit og spil frá 3. apríl má sjá hér og frá sl. þriðjudegi hér. Úrslit í samanlögðum butler allra kvöldanna má sjá hér en eins og menn vita má leggja frá sér versta kvöldið. Það breytti þó ekki röð 3ja efstu. Efstu fjögur sætin, þegar 4 bestu kvöldin eru talin (samanlögð prósenta):
Sigurður - Torfi 235,6
Björn - Eyþór/Billi 224,2
Elli - Kalli 218,8
Jói - Siggi 218,3
Þriðjudaginn 3. apríl höfðu hæglætismennirnir Jói og Siggi forystuna lengi vel, enda á sauðfjárbóndinn nánast eingöngu forystufé, en eftir að þeir áttuðu sig á því að ekki eru gefin aukastig fyrir að spila spilum rólega niður hertu þeir á sér. Það fór ekki vel, því prestakallarnir skutu sér upp fyrir þá á lokasprettinum og enduðu með 61,8% skor. Kom í sjálfu sér ekki á óvart, því prestasjónið er komið út í nýrri og endurbættri útgáfu sem er númer 35.7.4. (35. árið / 7. alvöru endurbætta útgáfan á árinu / 4. minniháttar lagfæringin frá síðustu stóru endurbótum á árinu). Þess má geta að útflutningur er hafinn á Prestasjónkerfinu og var fyrsta sending flutt á Selfoss strax þá um kvöldið.
Vertinn og sauðfjárbóndinn eiga ekkert prestasjón og enduðu því rólega í 2. sæti, með 60,9% skor. Svona svipaður standard og vant er. Útgáfa 27.0.0.
Þriðju urðu svo Árnesingurinn og Björninn með 58,8% skor. Þeir hafa aldrei notast við sagnkerfi, taka bara þann miða sem þeim finnst fallegastur hverju sinni úr sagnboxinu, oft 3 NT, enda kynþokkafullur miði. Það vita menn og Sýslumannsfrúin líka.
Sl. þriðjudag var mikil spenna í salnum og grannt fylgst með stöðunni. Mikið var enda undir, sjálf Meistarakeppnin. Allt var undir hjá Bjössa, því næði hann að sigra og smáútgerðarmaðurinn færi stigalaus frá kvöldinu yrði Björninn meistari. Lengi vel var útlit fyrir að svo færi. Björninn á að vísu ekkert forystufé og hefur því ekki séð hvernig það ber sig að. Það reyndist galli, því Ellinn og Kallinn skutust upp á toppinn á lokametrunum og enduðu með 59,6% skor. Bjöllarnir urðu í 2. sæti með 57,5% skor en þriðju Sýslumannsfrúin og fylgisveinn með 56,3% skor. Héraðshöbbðinginn og smáútgerðarmaðurinn náðu svo fimmta sæti, síðasta stigasætinu, með 52,5% skor. Þessi úrslit gerðu það að verkum að Sigurður vann Meistarakeppnina með 316 bronsstig en Bjössi varð annar með 303 bronsstig.