Rangæingar -- Prestakallarnir
Nú líður að lokum sveitakeppninnar og lékum við Rangæingar 6. umferð af 7 sl. þriðjudag.
"Það stöðvar okkur ekkert" sagði yfirsaxófónninn kátur eftir að hafa tekið Mikka ref til altaris á þriðjudaginn. Synd væri að segja að dýravelferð hafi verið ofarlega í huga prestakallanna það kvöldið, hvað þá formannsins sem dró heldur ekki af sér við slátrunina. Refurinn var tekinn, pelsaður og úrbeinaður á augabragði. Að vísu kann að vera að refurinn hafi anað blindandi í gildruna en eftir það var enginn miskunn. Refurinn fékk að fara heim með 4 lítil stig, sem duga honum þó til að hanga eins og hundur á roði í 3ja sæti mótsins. Saxófónsmenn hafa hins vegar lokið leik í þessu móti að heita má. "Veit ekki hvort ég nenni að mæta næst" sagði formaðurinn. "Fer heldur til Tenerif og hleypi minni spámönnum að, engin þörf fyrir byrjunarliðsmenn, við erum búnir að vinna þetta". Rétt hjá okkar elskaða formanni. Þeir eru efstir, 21 stigi á undan næstu sveit, svo úrslitin eru ráðin. Þeir eru vel að þessu komnir.
Bangsímon kom loks sterkur inn þegar litli Björn og stóri Björn áttu stórleik. Bangsarnir tók Njálssyni í teboð og unnu þá með 16 stigum. Bangsarnir eru þar með komnir upp í miðja deild en Njálssynir sitja í brunarústum Bergþórshvols á botninum.
Morgan Kane og Litli Jón áttust við í huggulegum leik og skildu sveitirnar jafnar með 10 stig hvor, ögn þó Morgan Kane í hag. Kanastaðahjónin áttu stórleik og drösluðu Sýslumannsfrúnni, sem átti alls ekki stórleik, með sér upp í 5. sæti.
Sæfinnur sjókall sat skipstjóralaus úti í horni í yfirsetu og þáði fyrir 12 stig. Talið er að skipstjórinn komi heim með vorskipinu sem fer frá Köben í maí.
Úrslit og stöðu í sveitakeppninni má sjá hér.