Rangæingar -- Hólastemman
Sl. þriðjudagskvöld vorum við Rangæingar fluttir hreppaflutningum niður í A-Landeyjar, nánar tiltekið í félagsheimilið Gunnarshólma, þar sem heimavöllur okkar að Heimalandi var upptekinn af einhverjum ástæðum. Ótrúlegt er þó að Samfylkingarmenn hafi verið þar með fund, eru ekki það margir að það þurfi heilt félagsheimili undir samkomuhald þeirra.
Ekki gekk þrautalaust að koma hópnum í Gunnarshólma, því eins og Kanastaðabóndinn sagði "Ég rata bara ekki þangað ófullur" og eru Kanastaðir þó að heita má næsta jörð í félagsheimilið. Hann skrapp því á Heimaland fyrst, fannst hægara að finna Gunnarshólma úr þeirri áttinni. Bólstaðarbóndinn fyrrverandi ráfaði um héraðið til að verða átta um kvöldið þegar hann loks fann félagsheimilið sitt og hefur hann þó tekið þar ófáa snúningana.
Á endanum fundu flestir spilastaðinn og mættu 13 pör til leiks. "Mér finnst drengnum vera að fara fram loksins" sagði Skógabóndinn að leikslokum. Þeir félagar söfnuðu að sér 236,2 impum og bættu þeim í ríflegt safn stiga fyrstu tveggja kvöldanna. Næstir inn urðu óvænt Sigurður og Torfi með 139,8 impa og þriðju í mark prestakallarnir, Halldór og Kristján, með 133,3 impa. Skógamennirnir eru langefstir í samanlögðu, svo langefstir að næstu manna verður ekki einu sinni getið hér, af tillitssemi við þá.
Klerkurinn söngglaði og meðhjálpari hans áttu góða von, fyrir síðasta spilið, að ná efsta sætinu. Á heimleiðinni sagði klerkur stundarhátt við samreiðarmenn sína, "Hugsið ykkur, ég þurfti bara að hitta á það!". Klerkur tók svo til við söng og raulaði sér til hughreystingar, við gömlu Hólastemmuna sem oft er notuð um jólasveina einn og átta:
Siggi og Jói sigri fleyttu,
sjaldan léttir við að fást.
En prestakallar púðrið bleyttu.
Púff! og hinsta skotið brást.