Rangæingar -- Ægissíðusystkinin
Sl. þriðjudag settumst við Rangæingar að spilum á Heimalandi að vanda. Lékum þar 2. kvöld af 6 í Butlertvímenningi vetrarins þar sem 4 bestu kvöldin munu telja til úrslita. Til leiks mættu 15 pör."
"Hva, karlinn þarf að æfa sig meira, þetta gengur ekki svona" sagði Ægissíðugoðinn aðspurður um fjarveru makkers síns, Svavars Haukssonar. "Ég sendi hann til Svíþjóðar í æfingabúðir. Lét hann hafa æfingaprógramm, æfingar tvisvar á dag, ekki minna".
Goðinn sótti ekki vatnið yfir lækinn, en þó yfir báðar Rangárnar, í leit að staðgengli Svavars, fékk systur sína til að taka stöðu Svavars á hinum kantinum. "Hún er náttúrulega alveg kjörin í þetta stelpan, er eins og ég og allt Ægissíðufólkið afskaplega góður spilari" sagði goðinn kampakátur að leikslokum. "Að vísu gerði hún óttalegar vitleysur í kvöld en ég gat nú bjargað því flestu", bætti goðinn hæversklega við.
Þau systkinin frá Ægissíðu urðu efst með 325,7 impa (imps across the field). Næstbestir þetta kvöld voru týndu sauðirnir, formaðurinn og sauðnautaskyttan, með 290,4 impa. Í þriðja sæti urðu svo dáðadrengirnir Siggi og Sigurjón með 267,9 impa. Aðrir unnu engin afrek þetta kvöld og verða því ekki tíundaðir hér frekar.
Skáldið leit yfir úrslitin og mælti:
Yfir vonum sumra syrti
samstillt voru í takti fínum
Því Inga stigin allflest hirti
með Ægi bróður sínum.
Efstir eftir 2 kvöld í Butlernum eru Jói og Siggi með 429,0 impa í nestispokanum.