Rangæingar -- Laufásinn og páskaeggið
Sl. þriðjudag komum við Rangæingar saman til að leika okkar árlega páskaeggjabarómeter. Til leiks mættu 13 pör og leikinn var Monrad - barometer, 28 spil. Mótið styrkir byggingafyrirtækið Krappi ávallt og gefur myndarleg páskaeggjaverðlaun.
Mótið var jafnt og spennandi, allt þar til lokin. Lungann úr kvöldinu sátu Moldnúpsvertinn og Skógabóndinn keikir í efsta sæti og tóku á móti hverju áskorendaparinu á fætur öðru en sendu þau særð niður í miðjan sal aftur. En enginn má við margnum og á endanum þraut drengina örendið og skottuðust sjálfir niður í miðjan sal og fóru þar með á mis við öll páskaegg.
Strandamaðurinn sterki og Héraðshöfðinginn áttu gott kvöld og komu í mark með glæsilegt skor,eftir varfærna byrjun, ein 67,1%. Fengu þeir að launum stórglæsieg páskaegg, Næstbestir þetta kvöld reyndust Sýslumannsfrúin síkáta og vinnumaðurinn á Sýslumannssetrinu, með 59,6% skor. Þeir fengu sérlega glæsileg páskegg að launum. Þriðju inn, þrátt fyrir áunna og verðskuldaða yfirsetu í 4ðu umferð, komu svo Eyþór og Björn með 55,4% skor og fengu þeir einkar glæsileg páskaegg að launum. ´
Hart var barist um fjórða og síðasta sætið sem veitti að launum glæsilegt páskaegg. Í síðustu setu mættu Ægissgíðugoðarnir löskuðu hestamannaparinu en Jói G. fótbrotnaði illa við uppvaskið nýverið og sat því með hann beinstífan allt kvöldið, altsvo þann fótinn sem er í gifsi.
Víkur nú sögunni að spili 28, síðasta spilinu í mótinu. Ægissíðugoðinn sat í vestur og eins og goða er siður þykir honum vænt um ásana og lætur þá því treglega af hendi. Því var það að hann hafði í tvígang tækifæri til að senda laufásinn úr húsi til góðra verka og sækja eiganda sínum páskaegg en lét það ekki eftir sér og fór á endanum heim með hann en páskaeggjalaus fyrir vikið, þar sem Jói og mr. Ólafsson fengu þar með hreinan topp í spili 28. Jöfnuðu þar með Ægissíðugoðana að stigum. Þar sem þer unnu þar með innbyrðissetuna fóru þeir heim með páskeggið en laufásinn fór heim á Ægissíðu í stað páskeggsins.
Úrslit og spil má sjá hér